Staða leghálsskimunar - Vika 25

Mynd af frétt Staða leghálsskimunar - Vika 25
28.06.2021

Staðan í þessari viku
Áfram gengur vel að senda sýni til Hvidovre sjúkrahússins og samstarfið gengur mjög vel. Eins og staðan er nú bendir allt til þess að klárað verði að senda uppsöfnuð sýni til rannsóknar fyrir sumarfrí eins og stefnt var að. Þá ætti sá flöskuháls að vera úr sögunni og bið eftir niðurstöðu að minnka um 4-6 vikur. 


Bið eftir niðurstöðum

Einnig sér fyrir endann á hinum flöskuhálsinum, þ.e. að koma niðurstöðum í skimunarskrá þannig að þær berist konum á Island.is. Niðurstöður berast til Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimunar (SKS) innan þriggja vikna eftir móttöku sýna á rannsóknarstofu Hvidovre sjúkrahússins. SKS forgangsraðar og hringir í þær konur sem hafa breytingar sem krefjast nánari greiningar og beiðni þar um gerð í samráði við þær hafi sýnið verið tekið á heilsugæslustöð. Kvensjúkdómalæknar fylgja eftir þeim sýnum sem þeir hafa tekið. 

Ef niðurstaða krefst ekki nánari greiningar heldur eftirlits eftir 6 eða 12 mánuði eða nýs skimunarsýnis eftir 3 eða 5 ár getur bið eftir að hún birtist á Island.is verið einhverjar vikur næstu vikur. Í haust má búast við að bið eftir niðurstöðum verði að jafnaði 4-6 vikur eins og stefnt var að í upphafi. Við eru þakklát fyrir þann skilning og þolinmæði sem þessum breytingum hefur verið sýndur.   

Við höfum fullan skilning á þeim óþægindum sem það kanna að valda að bíða eftir niðurstöðu og biðjumst velvirðingar á því. Skimun er boðin konum án einkenna þar sem skimað er eftir breytingum sem gætu valdið krabbameini, yfirleitt 10-30 árum eftir að HPV smit hefur átt sér stað. Í því samhengi er mjög ólíklegt að krabbamein þróist á vikum eða mánuðum hjá einkennalausum konum. Allt öðru máli gegnir um konur með einkenni, þar á ekki að taka skimunarsýni og bíða niðurstöðu þess heldur hefja greiningarferli.     

Töf á niðurstöðum er óháð því hvar sýnin eru rannsökuð, töfin hefði verið sú sama þó sýni hefðu verið rannsökuð á Landspítala. Ferlið krefst handavinnu í dag en þegar búið verður að forrita nýja skimunarskrá í samræmi við nýjar skimunarleiðbeiningar og rannsóknarferla verður þessi töf úr sögunni. Þegar ný skimunarskrá verður tilbúin tekur ekki lengri tíma að senda niðurstöður með rafrænum hætti frá Hvidovre sjúkrahúsinu í skimunarskrá en frá Landspítala í skimunarskrá.          

Nýgengi leghálskrabbameins

Frá því skimun hófst fyrir krabbameini í leghálsi hér á landi árið 1964 hefur náðst góður árangur við að lækka nýgengi þess (fjöldi nýrra tilfella á ári). Nýgengið hefur lækkað úr um 25 konur/100.000/ár þegar það var sem hæst í tæplega 9 konur/100.000/ ár. Í dag er nýgengi þess hér á landi 8.86 konur/100.000/ár og hefur farið hækkandi sl. 10 ár og í raun lítið breyst sl. 30 ár (1). 

Árið 2018 skilgreindi Alþjóða heilbrigðismálastofnun nýgengi leghálskrabbameins sem lýðheilsuvandamál ef það er hærra en 4 konur/100.000/ár.     

 

Mynd 1. Nýgengi leghálskrabbameins/100.000/ár
  

Dánartíðni leghálskrabbameins

Frá því skimun hófst fyrir krabbameini í leghálsi hér á landi árið 1964 hefur náðst góður árangur við að lækka nýgengi þess (fjöldi látinna kvenna á ári). Hins vegar hefur þróun dánartíðni verið alvarleg sl. 20 ár. Dánartíðnin jókst um 170% tímabilið 2014-2018 miðað við tímabilið 2004-2008 (1). Nýleg íslensk rannsókn hefur sýnt að konur greinast nú yngri og með alvarlegra stig leghálskrabbameins en áður (2). 


Mynd 2. Dánartíðni leghálskrabbameins/100.000

 

Hægt er að koma í veg fyrir og lækna leghálskrabbamein ef það er greint snemma og meðferðin er markviss. Eitt af hlutverkum heilbrigðisyfirvalda hér á landi er að sjá til þess að kerfi skimunar sé í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar og gagnreynda læknisfræði. Markmið heilbrigðisyfirvalda er að lækka nýgengi og dánartíðni leghálskrabbameins og helst útrýma því samkvæmt skilgreiningu Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (<4/100.000/konur/ár). 

Sem lið í því markmiði hafa heilbrigðisyfirvöld aukið aðgengi að skimun þannig að hún er nú í boði á öllum heilsugæslustöðvum landsins þar sem sýni eru tekin af ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum sem hafa hlotið til þess sérstaka þjálfun. Aðeins er greitt 500 kr. komugjald fyrir skimun fyrir krabbameini í leghálsi á heilsugæslustöð. Teknar hafa verið upp nýjar skimunarleiðbeiningar sem byggjast á vísindalegri þekkingu og gagnreyndri læknisfræði. Einnig náðust samningar við rannsóknarstofu Hvidovre sjúkrahússins, sem er ein fremsta rannsóknarstofan á þessu sviði í Evrópu, um rannsókn sýna vegna skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Rannsóknarstofa Hvidovre sjúkrahússins uppfyllir einnig allar kröfur skimunarleiðbeininga Embættis landlæknis.       
 
Heimild:
1. Krabbameinsskrá Íslands
2. Dóra Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Þóra Steingrímsdóttir, Ásgeir Thoroddsen. Læknablaðið 2018: Fylgirit 96 - skurðlæknar - sameiginlegt vísindaþing.

Í næsta pistli verður fjallað um af hverju sýnin eru rannsökuð á Hvidovre sjúkrahúsinu.