Þroska- og hegðunarstöð fær 19 milljón króna styrk

Mynd af frétt Þroska- og hegðunarstöð fær 19 milljón króna styrk
08.01.2015

Þann 30. desember sl. hlaut Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) 19 milljón króna styrk úr Jólagjafasjóði Guðmundar Andréssonar gullsmiðs. 

Tilgangur styrkveitingarinnar er að styðja við ÞHS til að taka á löngum biðlista sem safnast hefur upp undanfarin ár vegna síaukinnar aðsóknar í þjónustu stöðvarinnar. Styrkurinn gerir mögulegt að fjölga fagfólki ÞHS tímabundið og auka þannig afkastagetu og stytta  biðtíma barna eftir brýnni þjónustu. Í þessu sambandi má geta þess að nú í upphafi árs telur biðlistinn 280 börn, enda sló fjöldi tilvísana nýtt met árið 2014. 

Styrkurinn kemur sér því ákaflega vel og eru allir aðstandendur ÞHS ákaflega þakklát fyrir þann stuðning og viðurkenningu á mikilvægi starfsins sem styrkurinn felur í sér. 

Á myndinni eru Geir Gunnlaugsson fyrrverandi landlæknir og formaður stjórnar Jólagjafasjóðs Guðmundar Andréssonar gullsmiðs svo og Ingvi Þorsteinsson meðstjórnandi, Þorvaldur Karl Helgason meðstjórnandi gat ekki verið viðstaddur. Þá eru á myndinni Gyða Haraldsdóttir forstöðumaður ÞHS sem tók við gjafabréfinu, Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri HH og Katrín Davíðsdóttir barnalæknir ÞHS. 

Skilgreindur tilgangur sjóðsins er að veita styrki til verkefna sem stofnað er til í því augnamiði að bæta ummönnun barna og aldraðra.