Nýir svæðisstjórar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Mynd af frétt Nýir svæðisstjórar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
07.11.2016

Í september sl. voru auglýst störf svæðisstjóra heilsugæslustöðvanna í Efra Breiðholti, Efstaleiti, Hlíðum, Hamraborg, Hvammi og Seltjarnarnesi og Vesturbæ. Umsóknarfrestur um störfin rann út þann 5. október sl. Alls bárust 13 umsóknir um störf svæðisstjóranna. 

Eftirtaldir aðilar hafa verið ráðnir í auglýst störf: 

Nanna Sigríður Kristinsdóttir

Nanna Sigríður Kristinsdóttir, heimilislæknir hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Efra-Breiðholti frá og með 9. nóvember n.k.  Nanna starfar sem heimilislæknir hjá Heilsugæslunni Efra- Breiðholti. Hún er cand. med. et chir frá Háskóla Íslands og er með MRCGP gráðu í heimilislækningum frá Royal College of General Practitioners í London. Hún hefur lagt stund á diplómanám í heilsuhagfræði á síðast liðnum árum og er nú í meistaranámi í heilsuhagfræði við Háskóla Íslands. 

Nanna hefur starfað sem sérfræðingur í heimilislækningum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2001, lengst af hjá Heilsugæslunni Efra-Breiðholti eða frá ársbyrjun 2002. Þar áður starfaði hún m.a. á Chalkhill Center heilsugæslustöðinni í Wembley í London. Hún hefur setið í fjölda nefnda.

Alma Eir Svavarsdóttir

Alma Eir Svavarsdóttir, heimilislæknir og kennslustjóri hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Efstaleiti frá og með 9. nóvember n.k. Alma starfar sem heimilislæknir hjá Heilsugæslunni Efstaleiti og er kennslustjóri fyrir kandídatsár og sérnám í heimilislækningum. Hún er cand. med. et chir frá Háskóla Íslands og sérfræðingur í heimilislækningum frá University of Kentucky. 

Alma hefur starfað sem sérfræðingur í heimilislækningum hjá Heilsugæslunni Efstaleiti frá árinu 2000. Jafnhliða hefur hún verið kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum á Íslandi og kennslustjóri fyrir kandídatsár fyrir hönd Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá var hún m.a. í sex ár í forsæti yfir sérnámi í Evrópusamtökum kennara í heimilislækningum, EURACT.


Reynir Björn Björnsson 

Reynir Björn Björnsson, heimilislæknir hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Hlíðum frá og með 9. nóvember n.k. Hann er cand. med. et chir frá Háskóla Íslands og er sérfræðingur í heimilislækningum. 

Reynir hefur starfað sem sérfræðingur í heimilislækningum hjá Heilsugæslunni Hlíðum frá árinu 2004. Hann starfaði sem læknir og heimilislæknir í Noregi og Svíþjóð fyrir þann tíma, auk þess sem hann hefur jafnhliða starfi sínu í Hlíðum verið læknir Knattspyrnusambands Íslands og læknir í lyfjaráði Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, ÍSÍ. 


Rut Gunnarsdóttir 

Rut Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Hvammi frá og með 1. janúar n.k. Rut starfar sem hjúkrunarfræðingur við heilsugæslu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hún er með meistaragráðu í hjúkrun frá Háskóla Íslands, nám í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu frá Endurmenntun Háskóla Íslands og diplómanám í stjórnun á meistarastigi frá Háskóla Íslands. Rut er einnig með sérfræðiviðurkenningu í hjúkrun langveikra sjúklinga.

Rut hefur starfað hjá heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands frá árinu 2008. Þar áður hefur hún m.a. starfað hjá Vistor og Pharmanor og um þriggja ára skeið á geðdeild Landspítala. Rut hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum. 


Kristjana Kjartansdóttir

Kristjana Sigrún Kjartansdóttir, yfirlæknir hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslunnar Hamraborg frá og með 1. janúar n.k. Hún er cand. med. et chir frá Háskóla Íslands og sérfræðingur í heimilislækningum frá Málmey, Svíþjóð. Kristjana er ennfremur með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu og fjallaði meistararitgerðin um aðferðir til að meta gæði í heilsugæslu.

Kristjana hefur starfað sem yfirlæknir Heilsugæslunnar Hamraborg frá árinu 2000. Auk þess hefur hún starfað sem heimilislæknir og yfirlæknir hjá Heilsugæslunni Hamraborg og Miðbæ um langt skeið þar á undan og sem heimilislæknir í Málmey, Svíþjóð. Hún hefur setið í fjölda nefnda og ráða. 


Emilía Petra Jóhannsdóttir    
 
Emilía Petra Jóhannsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin í starf svæðisstjóra Heilsugæslu Seltjarnarness og Vesturbæjar frá og með 1. janúar n.k.. Emilía er með BS gráðu í hjúkrunarfræði.
 
Emilía hefur starfað sem yfirhjúkrunarfræðingur Heilsugæslunnar Seltjarnarnesi og Vesturbæ frá árinu 2005 og sem hjúkrunarfræðingur þar frá árinu 2001. Hún hefur starfað á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, sem hjúkrunarfræðingur og vann sem aðstoðardeildarstjóri á bæklunardeild Landspítala 1994 til 2000. Einnig starfaði hún sem hjúkrunarfræðingur um sex mánaða skeið á vegum íslenska Utanríkisráðuneytisins í Bosníu, þar sem hún sinnti breskum hermönnum í heilsugæslu og á sjúkrahúsum.

Við bjóðum þau öll velkomin til nýrra starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.