Heilsugæslan fær undanþágu frá verkfalli vegna vitjana

Mynd af frétt Heilsugæslan fær undanþágu frá verkfalli vegna vitjana
16.02.2023
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur fengið undanþágu vegna verkfalls Eflingar til að fá afgreitt eldsneyti á þá bíla sem stofnunin er með í notkun. Flestir bílanna eru notaðir af starfsfólki heimahjúkrunar.

í bréfi sem Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hefur sent heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að sótt hafi verið um undanþágu til eldsneytisafgreiðslu fyrir alls 79 bifreiðar. Undanþágunefnd Eflingar hefur samþykkt beiðnina.

Bílarnir eru notaðir til að sinna viðkvæmum sjúklingahópi sem ekki getur án þjónustunnar verið. Þar er fyrst og fremst um að ræða skjólstæðinga sem fá heimahjúkrun, en Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sinnir heimahjúkrun í Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Þá sinnir stofnunin læknisþjónustu, geðlæknaþjónustu og ýmsum öðrum vitjunum allan sólarhringinn.

Í bréfi forstjóra kemur fram að þar sem Strætó hafi fengið undanþágu hafi stofnunin ekki sótt um undanþágu vegna eldsneytis fyrir bíla starfsfólks. 

Sótt um frekari undanþágur ef þurfa þykir

Ekki hefur verið boðað til verkfalls hjá starfsfólki fyrirtækis sem sér um ræstingaþjónustu á öllum heilsugæslustöðvum stofnunarinnar. Í bréfi forstjóra kemur fram að verði boðað til verkfalls hjá því starfsfólki muni ræstingaþjónustan sækja um undanþágu til að starfsemi heilsugæslunnar geti haldið óhindrað áfram.

„Starfsmenn og stjórnendur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fylgjast náið með fréttum vegna vinnustöðvunar Eflingar stéttarfélags og munu sækja um frekari undanþágur ef ljóst verður að stefni í aðstæður er varða almannaöryggi,“ segir í bréfi Óskars.