Heima er pest valin besta auglýsingaherferðin

Mynd af frétt Heima er pest valin besta auglýsingaherferðin
28.03.2023
Auglýsingaherferð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heima er pest, var valin besta auglýsingaherferð síðasta árs á verðlaunahátíð auglýsingageirans á ÍMARK-deginum á föstudag. Herferðin fékk alls þrjá Lúðra á hátíðinni.

Herferðinni var ætlað að auka heilsulæsi almennings og hvetja fólk til að leita sér upplýsinga um algengar umgangspestir á vefnum Heilsuveru og hlúa að heilsunni ef það var lasið. Með því var leitast við að draga úr því að fólk með umgangspestir leitaði að óþörfu á heilsugæslustöðvar.

Auglýsingaherferðin þótti skera sig úr öðrum herferðum. Í henni var unnið út frá útsaumuðum myndum með orðunum „Heima er best“, sem flestir Íslendingar þekkja. Með léttum orðaleik, „Heima er pest“ var fólk minnt á að hlífa sér í veikindum og halda sig heima til að smita ekki aðra að óþörfu. 

Auglýsingaherferðin, sem unnin var af auglýsingastofunni Hér & Nú, fékk þrjá Lúðra á verðlaunahátíðinni. Hún fékk verðlaun sem besta herferðin, fyrir bestu veggspjöldin og skiltin, og fyrir bestu beinu markaðssetninguna.