Brugðist við skorti á heilbrigðisstarfsfólki

Mynd af frétt Brugðist við skorti á heilbrigðisstarfsfólki
29.02.2024
Dregið hefur úr ánægju með þjónustu heilsugæslunnar milli ára samkvæmt þjónustukönnun Sjúkratrygginga Íslands. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur unnið að ýmsum úrbótaverkefnum til að bregðast við þeim skorti á heilbrigðisstarfsfólki sem þessi þróun endurspeglar.

Sjúkratryggingar Íslands létu gera könnun meðal skjólstæðinga heilsugæslustöðva á síðasta ári með sama hætti og gert var árin 2022 og 2019. Heldur dregur úr ánægju með þjónustu heilsugæslustöðva milli ára og telja flestir þeirra notenda sem svöruðu könnuninni mikilvægast að bæta aðgengi að þjónustu.

Þessar niðurstöður koma stjórnendum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ekki á óvart. Mikill skortur hefur verið á heilbrigðismenntuðu starfsfólki, til dæmis heimilislæknum og hjúkrunarfræðingum, sem hefur lengt bið eftir ýmiskonar þjónustu. 

Stofnunin er enn að glíma við áhrif heimsfaraldursins, sem olli miklu álagi á starfsfólk heilsugæslunnar. Skjólstæðingum hefur fjölgað án þess að hægt hafi verið að fjölga starfsfólki, auk þess sem mikill fjöldi ferðamanna hefur leitað á heilsugæslustöðvar eftir þjónustu. Þá hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tekið að sér ýmis verkefni á undanförum misserum sem hafa reynst þung, til dæmis sóttvarnaraðgerðir og ýmiskonar þjónustu við hælisleitendur.

Þegar gripið til ýmissa aðgerða

„Það jákvæða við niðurstöður könnunarinnar er að fólk er almennt ánægt með hvernig leyst er úr erindinu þegar það kemur til okkar. Við erum mjög meðvituð um að við þurfum að bregðast við þessari stöðu og það höfum við raunar verið að gera,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri HH.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur undanfarið unnið að umbótaverkefnum sem er meðal annars ætlað að bregðast við skorti á heilbrigðisstarfsfólki. Markmiðið með þeim verkefnum er að nýta tíma sérhæfðs starfsfólks sem best og tryggja rétta þjónustu á réttum stað á réttum tíma.

Lögð hefur verið mikil áhersla á þverfaglegt samstarf á heilsugæslustöðvum og ráðið inn fagfólk á borð við félagsráðgjafa, sjúkraþjálfara, sjúkraliða og fleiri stéttir sem unnið geta með öðru starfsfólki og veitt skjólstæðingum þá þjónustu sem þeir þurfa.

Upplýsingamiðstöðin flokkar erindi

Þá hefur Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem sett var á laggirnar í heimsfaraldrinum, verið stækkuð verulega og tekið að sér aukin verkefni. Sérfræðingar miðstöðvarinnar svara fyrirspurnum um veikindi og heilsufar frá almenningi á netspjalli Heilsuveru og í síma 1700 allan sólarhringinn. Að jafnaði berast um 1.500 erindi á hverjum sólarhring. Miðstöðin hefur einnig séð um að vinna efni á fræðsluvef Heilsuveru í samvinnu við embætti landlæknis og Landspítala.

Nú hefur Upplýsingamiðstöðin fengið það verkefni að forflokka öll bráð erindi sem berast til heilsugæslustöðva í gegnum síma eða netspjall. Tilraunaverkefni sem sett var af stað í byrjun árs í Heilsugæslunni Mjódd gaf afar góða raun og er nú unnið að því að innleiða verklagið á öllum heilsugæslustöðvum stofnunarinnar.

Fólk með bráð erindi mun því brátt heyra fyrst af öllu í Upplýsingamiðstöðinni á netspjalli Heilsuveru eða í síma 1700. Þar meta hjúkrunarfræðingar erindið og bóka þá sem þurfa að koma samdægurs eða daginn eftir. Þannig er tími bæði skjólstæðinga og heilbrigðisstarfsfólks nýttur sem best. Þá hefur sýnt sig að hjúkrunarfræðingar Upplýsingamiðstöðvar geta leyst úr talsvert mörgum af þeim erindum sem berast með góðri ráðgjöf og sparað þar með skjólstæðingum óþarfa ferð á heilsugæslustöð.

Fjöldi úrræða í Heilsubrú

Annað úrræði sem vaxið hefur hratt hjá er Heilsubrú Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það er miðlæg þjónusta sem tekið hefur við ýmsum verkefnum sem ekki hefur reynst heppilegt að vinna á einstökum heilsugæslustöðvum. Þar eru til að mynda haldin fjölbreytt námskeið, til dæmis um breytingaskeið kvenna, offitu, sykursýki, streitu, svefnvanda og fleira. Almenningur getur skráð sig beint í námskeiðin auk þess sem fagfólk getur vísað í þau.

Þá eru einnig starfandi sérfræðingar hjá Heilsubrú sem ráðleggja og vinna með starfsfólki heilsugæslustöðva, til dæmis lyfjafræðingar, næringarfræðingar, sjúkraþjálfarar og fleiri.

Mikil eftirspurn eftir góðri þjónustu

„Við höfum verið að glíma við skort á heimilislæknum, hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Þar er okkar staða í sjálfu sér ekki önnur en hjá heilbrigðisstofnunum um allan heim,“ segir Sigríður Dóra. 

„Það er mikil eftirspurn eftir okkar góðu þjónustu og við verðum að vera raunsæ með að það er ekki að fara að breytast. Við höfum verið að leita allra leiða til að bregðast við og finna nýjar leiðir til að takast á við verkefnin. Við höfum sem betur fer ekki staðið ein í þeirri baráttu, þannig hefur til dæmis verið fjölgað verulega í læknanáminu í Háskóla Íslands og von á að fleiri læknar útskrifist á hverju ári eftir nokkur ár, sem vonandi mun gera okkur kleift að fjölga læknum hjá stofnuninni,“ segir Sigríður Dóra.