Fræðsla á ensku og pólsku á Heilsuveru

Mynd af frétt Fræðsla á ensku og pólsku á Heilsuveru
17.01.2024
Hluti af fræðsluvef Heilsuveru hefur nú verið þýddur á ensku og pólsku til að auðvelda aðgengi að upplýsingum um íslenska heilbrigðiskerfið fyrir þá sem ekki lesa íslensku.

Á Heilsuveru má finna upplýsingar um sjúkdóma, forvarnir og fyrirbyggjandi leiðir til heilbrigðara og betra lífs. Vefurinn er hugsaður sem fyrsti viðkomustaður til að leita að öruggum upplýsingum um auk þess sem þar er hægt að leita ráða hjá heilbrigðisstarfsfólki í gegnum netspjall. Þá má finna þjónustuvefsjá á vefnum þar sem hægt er að finna næstu heilsugæslustöð hvar sem er á landinu.

Nú hefur hluti vefsins verið þýddur á ensku og pólsku og geta því innflytjendur, ferðamenn og aðrir sem ekki geta nýtt sér íslenska hluta vefsins leitað sér upplýsinga um hvernig íslenska heilbrigðiskerfið virkar og hvar hægt er að fá þjónustu.

Fræðsluvefurinn Heilsuvera er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Embætti landlæknis og Landspítalans.