Skrifstofa sérnáms í heimilislækningum er staðsett í Álfabakka 16, 109 Reykjavík. Sími 513- 1500.

  • Kennslustjóri sérnámsins: Elínborg Bárðardóttir
  • Aðstoðarkennslustjóri: Jón Steinar Jónsson

 

Sérnám í heimilislækningum er elsta sérnám sem þekkist hérlendis og í upphafi var námið hugsað sem 3ja ára nám á Íslandi  með framhaldi erlendis. Nú er boðið uppá 5 ára nám hérlendis en margir taka samt sem áður hluta námsins erlendis m.a. í Svíþjóð. 

Í apríl 2015 var gefin út ný reglugerð (467/2015) þar sem lögð er meiri áhersla á ramma um sérnám á Íslandi og að nám fari fram samkvæmt marklýsingu þar sem kveður á um inntöku í sérnám, innihald, fyrirkomulag og lengd námsins og einstakra námshluta, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismat.

Námið er að mestu leiti starfsnám og skiptist í 3 ár í heilsugæslu og 2 ár á sjúkrahúsi. Sérnámslæknir fær mentor í upphafi náms sem fylgir honum út námið og er sérfræðingur á starfsstöð sérnámslæknisins. Einnig fær sérnámslæknir handleiðara á þeirri deild sem hann starfar á hverju sinni á sjúkrahúsi en miðað er við 8 mánuði á lyflækningadeild og 4 mánuði á slysadeild, barnadeild, kvennadeild og geðdeild.

Fræðilega kennslan eða hópkennslan fer fram í  hópum sem hittast vikulega, 2 hópar á höfuðborgarsvæðinu og einn á Akureyri.  Í hópkennslu eru s.k. kjarnafyrirlestrar en einnig farið yfir prófspurningar úr Ameríska heimilislæknaprófinu sem og haldnir Balintfundir og einnig vinnustofur þar sem farið er í ýmis praktísk efni.  Hluti af kröfum sem gerðar eru í náminu er rannsókn/gæðaverkefni sem sérnámslæknar vinna í samvinnu við mentor og kennslustjóra og kennara í heimilislæknisfræðideild HÍ.  Sérnámslæknar hafa rétt á námsleyfum eins og sérfræðilæknar í heilsugæslunni og velja sér námskeið í samráði við mentor og kennslustjóra.  Í sérnáminu er einnig skipulögð árleg námsferð innanlands s.k. Artic fundir/ferðir og einnig fara allir sérnámslæknar á Balintfundi í Oxford a.m.k. einu sinni á námstíma. 

Námið á að taka mið af fyrirfram ákveðnum kröfum um þekkingu, færni, viðhorf og skilning á sérgreininni Heimilislækningum og gert er ráð fyrir einstaklingsmiðuðu sérnámi með stuðningi, leiðbeiningu og eftirliti þannig að sérnámslæknir tileinki sér þá þekkingu, færni, viðhorf og skilning sem marklýsingin kveður á um.  

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi 467/2015

Marklýsing fyrir sérnám í heimilislækningum. Félag íslenskra heimilislækna, 2017.

 

Hópar

Dagskrá
Dagskrá hópakennslu 2018-2019 - Væntanlegt
Vísindi og rannsóknir
Í sérnámi í heimilislækningum á Íslandi er gert ráð fyrir að sérnámslæknir vinni á námstímanum að vísindarannsókn eða gæðaverkefni í samráði við mentor og kennslustjóra. 
Sérnámslæknir sækir kennslu um rannsóknarvinnu í heimilislækningum s.k. Sólvangsdaga og situr heimilislæknaþing Félags íslenskra heimilislækna (FÍH) sem haldin eru annað hvert ár.  
Á heimilislæknaþingi eru gjarnan kynntar rannsóknir/gæðaverkefni og niðurstöður rannsókna sérnámslækna. Sumir sérnámslæknar ljúka einnig rannsóknarvinnu með grein eða erindi/spjaldi á öðrum þingum eins og Norræna heimilislæknaþinginu sem haldið er annað hvert ár á Norðurlöndunum.
Í sérnáminu er gert ráð fyrir tíma frá annarri vinnu í heilsugæslunni til að sinna rannsókn/gæðaverkefni, að lágmarki 6 vikur á námstímanum.  
Mentorar
Lærimeistari/mentor er reyndur starfandi sérfræðingur í heimilislækningum sem tekur að sér að styðja, leiðbeina og hafa eftirlit með því að sérnámslæknir tileinki sér þá þekkingu, færni, viðhorf og skilning á heimilislækningum sem fram kemur í marklýsingu um sérnámið.
  • Mentor fundar reglulega með sérnámslækni á námstíma, metur og leiðbeinir um fræðilega vinnu og gefur ráð varðandi sérstaka þjálfun og námskeið.  
  • Mentor heldur utanum upplýsingar um nám og vinnu sérnámslæknis og gerir árlegt framvindumat og sendir kennslustjóra.
  • Mentor er í samvinnu við kennslustjóra varðandi námsframvindu og sækir fundi og fræðslu eins og við á varðandi sérnámslækninn  sem og almenna fundi og námskeið mentora. 
  • Mentor verður að þekkja og fara eftir marklýsingu og viðmiðunarreglum.  Mentor verður að starfa á viðurkenndri kennslustofnun og hafa lokið viðurkenndu mentornámskeiði og stunda símenntun í samráði við kennslustjóra.  Mentor skal þekkja vel til framkvæmdar og eðli námsmats 
  • Mats- og Hæfisnefnd Velferðarráðuneytisins metur hvaða heilsugæslustöðvar uppfylli kröfur fyrir sérnám í heimilislækningum og gerir kröfur um að fylgt sé viðmiðunarreglum m.a. varðandi mentora.