Persónuvernd hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Persónuvernd er mikilvæg í allri starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (hér eftir HH) og felur meðal annars í sér að starfsmenn virða mannhelgi allra sem til HH leita eða þar starfa. HH er nauðsynlegt að skrá og vinna ýmsar persónu- og heilsufarsupplýsingar til að geta veitt sem besta þjónustu. HH leggur ríka áherslu á að við meðferð upplýsinga ríki þagnarskylda og friðhelgi einkalífs sé virt og að upplýsingar séu varðveittar með öruggum hætti

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins miðlar ekki persónuupplýsingum til þriðja aðila nema á grundvelli lagaskyldu, samningsákvæða eða með samþykki hins skráða.

Persónuverndarfulltrúi

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur skipað persónuverndarfulltrúa sem svarar erindum og fyrirspurnum vegna vinnslu persónuupplýsinga hjá Heilsugæslunni.

Erindum og/eða fyrirspurnum má beina á netfangið personuverndarfulltrui@heilsugaeslan.is.  

Sjúklingar

Miðlun upplýsinga út fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) á sér eingöngu stað í samræmi við lög. Meðal annars geta heilbrigðisstarfsmenn sem starfa utan HH fengið upplýsingar sem eru varðveittar hjá HH þegar sjúklingar leita til þeirra vegna sinna veikinda. Einnig hafa landlæknir og Sjúkratryggingar Íslands aðgang að upplýsingum í vissum tilvikum. Þá er HH í ákveðnum tilvikum skuldbundin til að miðla upplýsingum til annarra aðila, svo sem barnaverndaryfirvalda, sóttvarnarlæknis og landlæknis og byggist það einnig á lagasetningu. Með samþykki viðkomandi sjúklinga er upplýsingum í fáum tilvikum miðlað til annarra. Þá geta íslenskir vísindamenn sem stunda rannsóknir í heilbrigðisfræðum fengið aðgang að upplýsingum hjá HH eftir að þeir hafa aflað leyfis vísindasiðanefnda í samræmi við lög nr. 44/2014 um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

Þinn réttur til aðgangs að upplýsingum

Þú hefur rétt á því að vera upplýst(ur) um það hvernig unnið er með upplýsingar um þig. Tilgangur persónuverndarstefnunnar er einmitt að upplýsa þig um það hvernig við notum upplýsingar um þig. En ef þú ert óviss, eða hefur þörf fyrir ítarlegri útskýringar á meðferðaraðili þinn, eða sá starfsmaður sem þú ert í sambandi við, að geta aðstoðað þig frekar, eða vísað þér á aðila sem býr yfir þeim upplýsingum. 

Þú hefur rétt á friðhelgi, trúnaði og vissu um að HH tryggi öryggi þinna trúnaðarupplýsinga.

Þú hefur rétt á því að mótmæla notkun eða deilingu þinna trúnaðargagna umfram það sem snýr að þinni meðferð og umönnun og að mótmæli þín séu tekin til greina. Ef ekki er hægt að verða við þínum óskum, á að gefa þér gild svör, þar með talið lagalegan rökstuðning fyrir því.

Þú hefur rétt til að leiðréttingar séu gerðar á þeim gögnum sem við geymum um þig ef einhverjar staðreyndavillur fyrirfinnast. Það er skylda okkar að tryggja að þær upplýsingar sem við geymum um þig séu ætíð réttar og uppfærðar. Við göngum úr skugga um það við hver ný samskipti sem þú átt við okkur. Við biðjum þig vinsamlegast um að hjálpa okkur að viðhalda þeim réttum, t.d. með því að láta okkur vita ef eitthvað hefur breyst s.s. ef þú hefur skipt um heimilislækni eða ef heimilisfang þitt er annað en gefið er upp í þjóðskrá. Það skiptir máli að þínar upplýsingar séu réttar. Vinsamlegast snúðu þér til starfsmanna á starfsstöð þar sem þú sækir þjónustu.

Ef þú ert sjúklingur hjá HH hefur þú rétt á aðgangi að þínum persónuupplýsingum, svo sem afriti úr þinni sjúkraskrá. Í slíkum tilvikum fyllir þú út þar til gert eyðublað um gagnaafhendingu.

Aðgangur að upplýsingum

Samkvæmt laga um persónuvernd og á grundvelli laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 á skráður einstaklingur rétt til aðgangs að skráðum persónuupplýsingum um sig. Samkvæmt lögum um sjúkraskrár á sjúklingur eða umboðsmaður hans á rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta og til að fá afhent afrit af henni ef þess er óskað. HH er skylt að svara beiðnum skráðs einstaklings án ótilhlýðilegrar tafar og innan eins mánaðar hið mesta. Færa þarf fram rök ef HH hyggst ekki taka slíkar beiðnir til greina.

Sjúkraskrá er safn sjúkraskrárupplýsinga um sjúkling sem unnar eru í tengslum við meðferð eða fengnar annars staðar frá vegna meðferðar hans á heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns. Sjúkraskrárupplýsingar eru lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgenmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar er varða heilsufar sjúklings og meðferð hans hjá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.

Þegar þú biður um aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrá getur þú bæði óskað eftir þeim í heild sinni eða takmarkað beiðnina við tiltekið tímabil.

Nota skal þetta eyðublað

Beiðni um afhendingu persónuupplýsinga

Starfsmannaupplýsingar

Þú hefur rétt á því að fá afhent afrit af þeim skrám sem Heilsugæslan heldur um þitt starfssamband við stofnunina.

Ef þú ert umsækjandi um starf eða starfsmaður gætir þú viljað fá afrit af þínum skrám. 

Ef óskað er upplýsinga um ráðningarferil eða starfssamband skal fylla út þar til gert eyðublað.

Þú hefur rétt til að leiðréttingar séu gerðar á þeim gögnum sem við geymum um þig ef einhverjar staðreyndavillur fyrirfinnast. Það er skylda okkar að tryggja að þær upplýsingar sem við geymum um þig séu ætíð réttar og uppfærðar. Við biðjum þig vinsamlegast um að hjálpa okkur að viðhalda þeim réttum, t.d. með því að láta okkur vita ef eitthvað hefur breyst Það skiptir máli að þínar upplýsingar séu réttar.

Beiðni um afhendingu persónuupplýsinga

 

Upplýsingar á heilsugaeslan.is

Þegar þú notar vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) verða til upplýsingar um heimsóknina. HH miðlar þeim ekki til annarra nema samkvæmt lagaskyldu til eftirlitsaðila.

Notkun á vafrakökum

Svokallaðar vafrakökur eru notaðar á vefnum til að telja heimsóknir á vefinn.

Við notum vafrakökur sparlega og með ábyrgum hætti. Upplýsingarnar notum við fyrst og fremst til að bæta notendaupplifun á vefnum. Notendur vefsins geta stillt vafra sína þannig að þeir láti vita af kökum eða hafni þeim með öllu.

HH notar Siteimprove til vefmælinga. Við hverja komu inn á vefinn eru nokkur atriði skráð, svo sem tími og dagsetning, leitarorð, frá hvaða vef er komið og gerð vafra og stýrikerfis. Þessar upplýsingar má nota við endurbætur á vefnum og þróun hans, t.d. um það efni sem notendur sækjast mest eftir og fleira. Ekki er gerð tilraun til að tengja slíkar upplýsingar við aðrar persónugreinanlegar upplýsingar.

SSL skilríki

Vefurinn notast við SSL skilríki þannig að öll samskipti sem send eru milli notanda og vefs eru dulkóðuð sem eykur öryggi gagnaflutningsins. SSL skilríki varna því að utanaðkomandi aðilar komist yfir gögn sem send eru í gegnum vefinn.

Hafa samband / Ábending 

Á vefnum er hægt að fylla út formið Hafa samband og senda til Skrifstofu HH. Erindin eru áframsend í tölvupósti til þess starfsmanns/starfsmanna sem málið varðar. Afrit af erindum sem berast úr þessum formum eru vistaðar í vefumsjónarkerfi og geymdar að hámarki í 2 mánuði.

Skráning á námskeið/viðburði

Upplýsingar sem berast í gegnum bókunarkerfi vefsins, vistast í vefumsjónarkerfi og eru geymdar að hámarki í 2 mánuði eftir námskeið/viðburð. Upplýsingar um greiðslukort vistast ekki í vefumsjónarkerfi.

Tenglar í aðra vefi

Á vef HH er stundum vísað á vefi annarra stofnana og fyrirtækja. Reglur HH um öryggi notenda gilda ekki á vefjum utan hans. HH ber ekki ábyrgð á efnisinnihaldi eða áreiðanleika slíkra vefja.

Fyrirvari

Þótt leitast sé við að hafa upplýsingar á vef HH réttar og í samræmi við nýjustu stöðu mála er ekki hægt að ábyrgjast að svo sé. Þetta á einnig við um tilvísanir og tengla í efni utan vefsins.

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?