Evrópsk ráðstefna um heilsuvernd barna á Grand Hótel Reykjavík 8.-10. október

Mynd af frétt Evrópsk ráðstefna um heilsuvernd barna á Grand Hótel Reykjavík 8.-10. október
22.08.2008

Árleg ráðstefna European Society for Social Paediatrics and Child Health (ESSOP) verður haldin á Grand Hótel Reykjavík dagana 8.-10. október n.k.

ESSOP eru samtök fagfólks sem vinnur að heilsuvernd barna (sjá http://essop.org). Ráðstefnurnar eru sóttar af einstaklingum með fjölbreyttan faglegan bakgrunn utan sem innan Evrópu og nú einnig íslensku fagfólki. Megin umfjöllun ársfundarins að þessu sinni er heilsa ungra skólabarna.

Auk fyrirlesara frá Íslandi og félaga í ESSOP höfum við boðið tveimur gestafyrirlesurum til fundarins. Um er að ræða þau Dr. Clyde Hertzman frá Kanada og Dr. Frances Page Glascoe frá Bandaríkjunum. Bæði eru meðal fremstu vísindamanna á sínu sviði og eftirsóttir fyrirlesarar og mikill fengur að fá þau hingað til lands. Þess má sérstaklega geta að Frances Glascoe er höfundur tveggja skimprófa sem hafa nú verið þýdd á íslensku (PEDS og BRIGANCE) og tillaga er um að taka í notkun í ung- og smábarnavernd hér á landi.

Skipulagning ársfundarins hefur verið á höndum Geirs Gunnlaugssonar, forstöðumanns Miðstöðvar heilsuverndar barna (MHB) í samvinnu við samstarfsfólk í Kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík, MHB og stýrihóps ESSOP.

Hægt er að skoða fyrirliggjandi dagskrá og upplýsingar um gestafyrirlesara og annað sem snertir ráðstefnuna á heimasíðu hennar:

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna, ráðstefnugjald og skráningu má fá hjá Geir Gunnlaugssyni.