Samstarfssamningur á milli BUGL og MHB

Mynd af frétt Samstarfssamningur á milli BUGL og MHB
21.06.2006

Barna- og unglingageðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss (BUGL) og Miðstöð heilsuverndar barna (MHB) hafa undirritað samstarfssamning vegna þjónustu við börn með erfiðleika á geð- og hegðunarsviði. MHB er sérhæfð stofnun innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og vinnur að þróun heilsuverndar barna og unglinga á landsvísu.

Undanfarin ár hefur Þroska- og hegðunarsvið MHB sinnt greiningu vegna gruns um frávik í þroska eða hegðun barna á aldrinum 0-6 ára. Með þessum nýja samningi við BUGL verður þjónustan aukin vegna barna með vandamál svo sem ofvirkni, athyglisbrest og aðrar hegðunar- eða lyndistruflanir, sérstaklega hvað varðar ráðgjöf og eftirfylgd auk greiningar. Þessi aukna þjónusta mun einnig standa til boða fyrir börn í 1. bekk grunnskóla og stefnt er að því að efla hana og auka eftir því sem fjárveitingar frá ráðuneyti heilbrigðismála leyfa.

Markmið samstarfs MHB og BUGL er að stuðla að bættri þjónustu við börn með hegðunar- og/eða geðvanda og fjölskyldur þeirra með því að auka aðgengi að sérhæfðri greiningu, meðferð og eftirfylgd innan heilsugæslunnar. Þetta dregur úr álagi á þá þjónustu sem veitt er frá BUGL og styttir jafnframt biðtíma margra barna eftir þjónustu. Með þessu verður mögulegt að grípa fyrr inn en áður inn í málin með markvissri íhlutun og fyrirbyggja þannig að vandamál verði eins alvarleg og ella hefði getað orðið.