Hreyfing verði taktur í lífsstíl

Mynd af frétt Hreyfing verði taktur í lífsstíl
01.08.2019

Árið 2016 lauk inn­leiðingu hreyfi­seðilsins á allar heilsu­gæslu­stöðvar og sjúkra­stofnanir á Ís­landi. Hreyfi­seðillinn er með­ferðar­úr­ræði við sjúk­dómum eða ein­kennum þeirra sjúkdóma sem vitað er að reglu­leg hreyfing getur haft um­tals­verð á­hrif á.

 Á hverri stofnun er starfandi sjúkraþjálfari sem er hreyfi­stjóri. Sjúklingnum er boðið upp á að fá hreyfi­seðil og getur þannig, að einhverju leyti, stýrt sinni eigin meðferð sjálfur. Hreyfiseðlarnir eru annaðhvort einir og sér, eða með lyfjum. Stundum þarf hvort tveggja, en það er vel búið að sýna fram á að þetta er ein af lausnunum sem maður á að nýta,“ segir Auður Ólafsdóttir, verkefnisstjóri hreyfiseðla hjá Þróunarmiðstöð heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Sjúkraþjálfari og sjúklingur búa saman til hreyfiáætlun. Auður segir að það fari eftir sjúkdómi sjúklingsins og sjúkrasögu hans hvernig áætlunin er, en segir að vel sé tekið tillit til þess hvort fólk hafi mikið hreyft sig áður eða ekki. Meðferðin sé einstaklingsmiðuð og farið sé eftir sænska módelinu, þar sem búið er að taka saman hvers konar hreyfing henti best hvaða sjúkdómi og einkennum.

„Við segjum ekki kvíðasjúklingi að hreyfa sig eins og einhverjum sem er með langvarandi verki eða háan blóðþrýsting,“ segir Auður.

Hún segir að oft snúist þetta um hvatningu hjá fólki.

„Fólk er kannski vant því að fá lyf eða einhvern veginn að láta laga sig, en þarna ertu að nota aðra aðferð og þá skiptir hvatningin rosalega miklu máli. Allir sjúkraþjálfararnir eru menntaðir í ákveðinni samtalstækni sem miðar að því að virkja sjúklinginn og heyra hvað hann vill. Að skilja og leiðbeina, en ekki segja fyrir. Að fá samvinnu,“ segir Auður.

Hún segir að fólk sem fái ávísað hreyfiseðlum stundi ýmiss konar hreyfingu og þau sem lengra eru komin í sinni meðferð fari jafnvel í ferðalög, eins og lengri gönguferðir.: „Það fer allt eftir sjúkdómnum sem viðkomandi er með, og hvort hann sé vanur að hreyfa sig. Sett er upp áætlun og viðkomandi fenginn til að gera þetta að takti í sínum lífsstíl,“ segir Auður.

Auður segir að langflestir geri eitthvað á eigin vegum, eins og að ganga eða synda, og nýti þannig umhverfi sitt. Hún segir að því hafi, við innleiðingu, verið lögð rík áhersla á að vera í nánu samstarfi við bæjarfélögin og þau upplýst um mikilvægi þess að halda göngustígum upplýstum, mokuðum og að bekkir séu við þá.

„Svo að hægt sé að nýta náttúruna sem best. Því flestir vilja vera þar,“ segir Auður.
Hún segir að ef fólk hafi áhuga á ferðalögum og lengri útiveru, þá geti það verið hluti af hreyfi­seðlum. Það séu, sem dæmi, margir sem hafi mikinn áhuga á göngum og hafi, eftir einhvern tíma í úrræðinu, skráð sig í gönguhópa. Margir taki þátt í áskorunum sem hefjist á vorin og smám saman sé aukið í.

Hún segir að fólkið sem kemur til þeirra og fær ávísað slíkum seðlum sé með frekar litla getu til að byrja með, en unnið sé markvisst að því að auka hana.

Auður segir að alls hafi 1.500 manns tekið þátt í verkefninu í fyrra og að meðferðarheldni, það er hversu vel viðkomandi hafi stundað hreyfinguna sem skrifað var upp á, hafi verið alls 72 prósent.

„Fólk er að vinna í þessu úrræði samkvæmt ráðleggingum. Það segir okkur að fólk sé ánægt og finni bót með þessu,“ segir Auður.

Af þeim 1.500 sem hafa tekið þátt eru 65 prósent konur og 35 prósent karlmenn. Aldursbil þeirra sem tekið hafa þátt er 18 til 92 ára.

 

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 1. ágúst 2018

Blaðamaður: Lovísa Arnardóttir