Algengar spurningar um mislinga

Mynd af frétt Algengar spurningar um mislinga
07.03.2019

Hverjir geta verið smitaðir?

Einstaklingur sem smitast af mislingum getur smitað aðra 6 dögum eftir að hann smitast og í 15 daga frá þeim tíma. Því þarf hann að vera í sóttkví á þessum tíma.

Hverja er ráðlegt að bólusetja?

  • Fólk sem ekki hefur verið bólusett við mislingum eða fengið sjúkdóminn og hefur umgengist einstakling sem mögulega er smitandi.
  • Hægt er að bólusetja börn frá 6 mánaða aldri hafi þau verið í umgengni við einstakling sem mögulega var smitandi. 
  • Ef barn er undir 6 mánaða og er útsett fyrir smiti þarf að tala við smitsjúkdómalækni barna vegna mögulegrar Immunoglobulin gjafar í æð.

Bólusetning þarf að fara fram innan 72 klukkustunda frá mögulegu smiti. 

Ekki má bólusetja þungaðar konur og þá sem eru með alvarlegt eggjaofnæmi.

Hvernig veit ég hvort ég hafi fengið bólusetningu?

  • Þeir sem eru fæddir eftir 1975 eru líklegast bólusettir nema foreldrar þeirra hafi hafnað bólusetningu. 
  • Allir fengu bólusetningarskírteini sem oft eru til í fórum foreldra þeirra. Ef bólusetning er skráð í kringum 12 ára aldur er það líklegast mislingabóluseting.
  • Hægt er að sjá bólusetningar sem gefnar voru eftir að farið var að skrá bólusetningar í rafrænan bólusetningagrunn inn á mínum síðum Heilsuvera.is eða á island.is
  • Þeir sem ekki eru vissir með þetta eða hafa áhyggjur geta leitað til heilsugæslunnar og fengið bólusetningu.

Hverjir hafa fengið mislinga?

Þeir sem eru fæddir fyrir 1970 hafa líklegast fengið mislinga. 

Hver eru einkenni mislinga?

Einkenni mislinga koma fram um 10-12 dögum eftir smit og geta verið mismikil eftir einstaklingum. Þau byrja oft með flensulíkum einkennum þ.e. hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3-4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna.

Mislingar eru greindir með nefkokssýni er tekið á veirupinna. Svar tekur 3 - 4 klukkustundir.  Áreiðanleiki sýnatöku er mikill ef einkenni eru komin en ekki ef einkenni eru ekki til staðar.

Hvað á að gera ef einkenna verður vart?

Þeir sem telja sig, eða börn sín, vera með mislinga eiga að hringja á sína heilsugæslu eða í síma 1700. Ekki mæta á heilsugæslustöð eða sjúkrahús.

Hringdu í síma 1700 ef þú þarft ráðgjöf varðandi mislinga. Ekki koma á heilsugæslustöð.