COVID-19 smitvarnir hjá heilsugæslunni

Mynd af frétt COVID-19 smitvarnir hjá heilsugæslunni
29.12.2021

Nú leggjum við áherslu á að vernda starfsemi heilsugæslustöðvanna til að geta haldið áfram að veita nauðsynlega heilsugæsluþjónustu.

Þess vegna biðjum við skjólstæðinga okkar sem eru með einkenni sem geta bent til COVID-19, að koma ekki á heilsugæslustöðvar án þess að fara í sýnatöku. 

Ef það er erfitt vegna aðstæðna viðkomandi, eða ef erindið þolir ekki bið, getur fólk sem er með kvefeinkenni komið án niðurstöðu úr PCR prófi. Mælst er til að fólk hringi fyrst.

Nánar um sýnatökur:

  • Fólk með kvefeinkenni á að fara í PCR einkennasýnatöku og vera komið með niðurstöðu áður en komið er á heilsugæsluna. Einkennasýnataka er pöntuð á Mínum siðum á heilsuvera.is. Þau sem eru ekki með rafræn skilríki geta pantað einkennasýnatöku í netspjalli Heilsuveru. Gera þarf ráð fyrir að bið eftir niðurstöðum geti orðið allt að 48 tímar.
  • Þau sem eiga brýnt erindi á heilsugæsluna, en eru með kvefeinkenni og geta ekki beðið eftir niðurstöðum úr PCR prófi þurfa að hafa samband við heilsugæsluna fyrir komu. Þau fara svo í hraðpróf við komu á heilsugæsluna og jafnframt er tekið PCR próf til öryggis, og það er sent í greiningu.  
  • Ekki dugar að taka heimapróf, sjálfpróf eða hraðpróf. 
  • Verið er að bæta aðstöðu fyrir sýnatökur til að bæta aðgengi fyrir alla.

Aðrar smitvarnir á heilsugæslustöðvum:

Það er grímuskylda á öllum okkar starfsstöðvum og við minnum á handþvott og handspritt. Fækkum fylgdarmönnum, höldum fjarlægð og styttum tíma sem dvalið er á stöðinni.

Starfsemi stöðvanna hefur verið endurskipulögð eins og hægt er til að minnka hættu á smiti en veita samt þessa mikilvægu þjónustu

Það er samstarfsverkefni okkar allra að verja starfsemi heilsugæslustöðva og við þökkum skilning og samstöðu hingað til.

Frétt uppfærð 30. desember kl.15:20