Fjölskyldulífið nú á tímum COVID-19

Mynd af frétt Fjölskyldulífið nú á tímum COVID-19
27.04.2020

Undanfarnar vikur hefur COVID-19-faraldurinn valdið róti í hversdagslífinu og flestir hafa þurft að breyta venjum sínum. Í sumum tilfellum hefur fjölskyldan notið meiri samveru en venjulega þar sem skólahald er skert. En víða hafa foreldrar þurft að sinna fleiri skyldum en áður auk þess að breyta háttum sínum við vinnu, og álag aukist eftir því. 

Gott skipulag mikilvægt 

Það er álag að vera meira heima, með börn í skertri stundaskrá og vera áfram í fullri vinnu, annaðhvort að heiman eða á vinnustaðnum. Hefðbundin heimilisstörf halda svo auðvitað áfram líka og hafa jafnvel aukist. Þá getur létt á álaginu að koma sér upp skriflegu og myndrænu dagskipulagi. Á síðustu metrum samkomubannsins er þörfin fyrir skipulag síst minni þar sem úthaldið getur verið farið að minnka og erfiðara að halda rútínu. 

Þegar sett er upp skipulag fyrir börnin er mikilvægt að ætla sér ekki um of: 

  • Útbúa dagskrá í sameiningu sem er ekki of stíf en skiptir deginum upp. T.d. lestur og annað heimanám fyrir hádegi, svo hæfilega löng útivera (t.d. fótbolti í garðinum), hádegismatur, skjátími, æfa sig á hljóðfæri, frjáls tími. Með því að fá krakkana til að koma með tillögur að dagskrárliðum og hafa dagskrána líflega getur verið auðveldara að fá þau til að fylgja henni.
  • Ekki reyna að halda dagskrá alla daga, það þarf líka að gefa sér og börnunum frjálsan tíma. En ef aldrei er farið eftir dagskipulaginu þarf að setja það upp á nýtt í samvinnu við alla fjölskylduna.
  • Í sumum tilfellum þarf að slaka aðeins á kröfum, t.d. gagnvart heimanámi og skipulögðum tómstundum. Það getur truflað allt heimilislífið ef barninu finnst það ekki ráða við skyldur sínar og þær kröfur sem til þess eru gerðar.
  • Slakaðu á kröfum sem þú gerir til þín, það er allt í lagi að hafa einfaldan mat og að skjátíminn sé lengri en gengur og gerist meðan á þessu stendur.
  • Svefninn er einn mikilvægasti þátturinn í andlegri og líkamlegri heilsu. Ef svefnvenjur breytast mikið er hætt við að ekki náist endurnærandi svefn með tilheyrandi eirðarleysi og ergelsi. Hægt er að sjá hvað er mælt með löngum svefni eftir aldri á heilsuvera.is.
  • Virknikrukka. Útbúa miða með ýmsu sem barnið getur gert sjálft og fjölskyldan ræður við og setja í krukku sem barnið dregur úr. Dæmi um virkni getur verið að teikna, dansa saman, fara út í fótbolta, elda eða baka saman.

Hlúa að sjálfum sér og sínum nánustu

En þó gott sé að hafa skipulag, þá má það ekki taka yfir. Þegar við erum undir auknu álagi, eins og núna þegar kórónuveirufaraldurinn geisar, þá þarf fyrst og fremst að huga að því að hlúa að sjálfum sér og sínum nánustu. Að hlúa vel að sér getur stundum falist í því að gera sem minnst og leyfa sér að vera í hægagangi. 

Ef foreldrar eða börn upplifa mikinn vanmátt, sorg, kvíða eða depurð í tengslum við COVID-19 er hægt að fá símaviðtal við sálfræðing á heilsugæslunni eða ræða við hjúkrunarfræðinga á heilsuvera.is

 

Sólveig Hlín Kristjánsdóttir, sálfræðingur á Heilsugæslunni Miðbæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.