Auglýsingaherferð ætlað að auka heilsulæsi

Mynd af frétt Auglýsingaherferð ætlað að auka heilsulæsi
09.09.2022
Nýrri auglýsingaherferð heilsugæslunnar sem hleypt var af stokkunum í byrjun viku er ætlað að vekja athygli á þekkingarvefnum Heilsuveru, auka heilsulæsi landsmanna og draga úr álagi á heilsugæslustöðvar.

Yfirskrift herferðarinnar er „Heima er pest“ sem vísar í myndir með orðunum „heima er best“, sem prýtt hafa veggi íslenskra heimila svo lengi sem elstu menn muna. Auglýsingarnar vísa í algengar umgangspestir og beina fólki inn á vefinn Heilsuveru.

Heilsuveru þekkja flestir landsmenn, en þar er hægt að endurnýja lyf, eiga samskipti við heilbrigðisstarfsfólk og auðvitað fá niðurstöður úr Covid-19 prófum. Heilsuvera er einnig yfirgripsmikill þekkingarvefur þar sem fjallað er um sjúkdóma og sjúkdómseinkenni. Þekkingarhluti vefsins er unninn í samstarfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, embætti landlæknis og Landspítalans.

Í auglýsingaherferðinni er gamaldags útlit og tónlist notað til að ná athygli, ásamt smá húmor í bland. Þar er fólk sem er með væg einkenni tengd hefðbundnum umgangspestum hvatt til að afla sér upplýsinga á Heilsuveru. Þar má finna ítarlegar upplýsingar þar sem tekið er skýrt fram hvort, og þá hvenær, rétt er að leita til heilsugæslu eða jafnvel bráðamóttöku.

Átakinu er ætlað að draga úr álagi á heilsugæsluna með það að markmiði að þeir sem raunverulega þurfa aðstoð heilbrigðisstarfsfólks fái þjónustu hratt og vel. Oft á tíðum er lítið hægt að gera við umgangspestunum annað en að sýna sér mildi og bíða þess að einkennin gangi yfir og því lítill tilgangur í að leita beint á næstu heilsugæslustöð við fyrstu einkenni.