Bætt þjónusta heilsugæslunnar við innflytjendur

Mynd af frétt Bætt þjónusta heilsugæslunnar við innflytjendur
08.09.2022
Þjónusta Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við hælisleitendur og innflytjendur hefur verið efld með því að breyta hlutverki Göngudeildar sóttvarna, sem nú hefur fengið nafnið Heilbrigðisskoðun innflytjenda.

Þjónusta heilsugæslunnar við innflytjendur utan Evrópska efnahagssvæðisins og hælisleitendur verður hér eftir veitt í Móttökumiðstöð umsækjenda um alþjóðlega vernd í Domus Medica, Egilsgötu 3. Þar geta þessir hópar einnig fengið þjónustu hjá lögreglu, Útlendingastofnun og fleiri aðilum.

Fyrirkomulag þjónustunnar er enn í mótun og fyrst um sinn verður sálfræðiþjónusta við innflytjendur og hælisleitendur veitt í Þönglabakka 1. 

Ferðamannabólusetningar, sem áður voru veittar á Göngudeild sóttvarna, verða hér eftir veittar á heilsugæslustöðvum. Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar mun sjá um ráðgjöf varðandi ferðamannabólusetningar í netspjalli á vefnum Heilsuvera.

Meginhlutverk Heilbrigðisskoðunar innflytjenda er að veita fólki sem flyst til landsins frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins heilbrigðisskoðun við komuna til landsins. Nánari upplýsingar um starfsemina má finna hér.