Fræðsla og þjónusta tengd breytingaskeiði kvenna efld

Mynd af frétt Fræðsla og þjónusta tengd breytingaskeiði kvenna efld
10.08.2022
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur fengið þriggja milljóna króna styrk frá heilbrigðisráðuneytinu til að efla heilbrigðisþjónustu og fræðslu tengda breytingaskeiði kvenna.

Heilsugæslan hefur að undanförnu unnið að uppsetningu á nýju kvenheilsuteymi eftir að sérstök fjárveiting fékkst til verkefnisins. Þar er unnið að gerð fræðsluefnis um breytingaskeið kvenna sem er hið fyrsta sinnar tegundar á vegum hins opinbera og hefur hluti efnisins þegar verið birtur á vefnum Heilsuveru. Samhliða er unnið að undirbúningi fyrir ráðgjafaviðtöl og námskeið fyrir konur á breytingaskeiði og jafnvel maka þeirra sem er nýjung. 

Fræðsla og innleiðing á nýjum verklagsreglum fyrir heilbrigðisstarfsfólk er hluti af verkefninu enda er sífellt að koma fram ný þekking á þessu tímabili í lífi kvenna og val er um fleiri meðferðarmöguleika með eða án hormónauppbótarmeðferðar. Heilsugæslan mun sem fyrr taka á móti konum á breytingaskeiði sem hafa þörf fyrir fræðslu, meðferð, stuðning og ráðgjöf. En með tilkomu kvenheilsuteymisins verður hægt að veita enn víðtækari og sérhæfðari þjónustu þegar þörf er á. 

Markmiðið með verkefninu er að efla heilsu og bæta líðan kvenna á breytingaskeiði. Þannig má bæta gæði þjónustu við þennan hóp og draga úr álagi á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Styrkurinn frá heilbrigðisráðuneytinu mun meðal annars nýtast til að efla þetta starf og auka gæði þjónustunnar. Með tilkomu hans er hægt að fylgjast betur með árangri verkefnisins, meta gæði og þörf fyrir þjónustuna og þróa áfram þessa áhugaverðu nýjung í þjónustu heilsugæslunnar.

Kvenheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins mun vinna að þessu verkefni. Teymið starfar sem viðbót við hefðbundna þjónustu heilsugæslunnar og verður konum vísað þangað þegar þörf er á aukinni meðferð eða fræðslu. Auk þess að sinna konum á breytingaskeiði mun teymið sinna fræðslu og meðferð vegna sjúkdóma sem herja einungis á konur, veita ráðgjöf og meðferð sem snýr að getnaðarvörnum og afleiðingum áfalla og ofbeldis. Kvenheilsuteymið er nú að taka koma sér fyrir í nýju húsnæði í Þönglabakka og mun taka á móti konum í hlýlegu umhverfi í byrjun haustsins.