Bilun olli vandræðum með að leysa út lyfseðla

Mynd af frétt Bilun olli vandræðum með að leysa út lyfseðla
03.08.2022
Skjólstæðingar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lentu í vandræðum með að leysa út lyfseðla í gær vegna bilunar í tölvukerfi sem læknar nota til að senda frá sér rafræna lyfseðla. Bilunin hefur nú verið lagfærð og geta sjúklingar sótt lyf í apótek eins og venjulega.

Bilunin kom upp hjá þjónustuaðila seinnipart dags í gær og var þegar hafist handa við viðgerð. Ekki var um tölvukerfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að ræða heldur kerfi sem heilsugæslan nýtir til að senda rafræna lyfseðla til apóteka. 

„Þetta er auðvitað fyrst og fremst slæmt fyrir okkar skjólstæðinga sem treysta á að geta útleyst lyfin sín í apótekum,“ segir Jónas Guðmundsson, staðgengill forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Svona bilanir eru sjaldgæfar við vonum að sem fæstir hafi orðið fyrir óþægindum vegna hennar.“

Í neyðartilvikum geta apótek afgreitt lyf samkvæmt eldri lyfseðlum þó kerfið liggi niðri. Þá er tryggt að lyfseðlar sem læknar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins senda í gegnum kerfið skili sér til apótekanna þegar kerfið er komið í gang á nýjan leik.