Heilsugæslan Mosfellsumdæmi opnar formlega

Mynd af frétt Heilsugæslan Mosfellsumdæmi opnar formlega
12.05.2022

Í dag var nýtt húsnæði Heilsugæslunnar Mosfellsumdæmi opnað formlega. Starfsemin flutti í Sunnukrika 3 úr Þverholti fyrir rúmu ári síðan, í mars 2021. Eins og staðan var þá var ekki ráðlegt að blása til veisluhalda en það er vel við hæfi að opna formlega 12. maí sem er alþjóðadagur hjúkrunar.

Við opnunina bauð Jórunn Edda Hafsteinsdóttir svæðisstjóri og fagstjóri hjúkrunar gesti velkomna og fór yfir sögu stöðvarinnar.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tók þá til máls. Hann lagði m.a. áherslu á mikilvægi heilsugæslunnar innan heilbrigðiskerfisins og að heilbrigðisráðuneytið vildi vera "liðið á bak við liðið". Hann endaði á að þakka starfsfólki heilsugæslunnar fyrir frammistöðuna í Covid-faraldrinum.

Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) óskaði starfsfólki og Mosfellingum til hamingju með glæsilegt húsnæði. Hann sagði frá óvenjulegum aðferðum við að skipuleggja húsnæðið og starfsemina sem skilaði þessa góða árangri.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri lýsti því hversu mikilvægt væri að hafa svona góða þjónustu miðsvæðis og sagðist hafa fengið góða þjónustu á stöðinni á Reykjalundi, í Þverholti og núna síðast í Sunnukrika.

Sögu heilsugæslu í Mosfellssveit má rekja aftur til 1950 þegar skipaður var fyrsti héraðslæknir héraðsins. Þjónustan þróaðist síðan yfir í vísi að heilsugæslustöð með vaxandi þjónustu en saga stöðvarinnar er samofin sögu Reykjalundar þar sem hún var staðsett til ársins 1998. Þá flutti heilsugæslan í Kjarnann í Þverholti. Þá hafði sveitin breyst í bæ þar sem bjuggu um 5.000 manns.

Heilsugæslan í Þverholti var um 650 fermetrar og starfsemin jókst talsvert á þeim rúmu 20 árum sem hún var staðsett þar. Hver kimi var vel nýttur og það var orðið ansi þröngt á þingi í restina. Nú er Mosfellsbær með rúmlega 13.000 íbúa og þörfin á stærri heilsugæslu því orðin mikil. 

Starfsfólk stöðvarinnar kom að hönnun nýja húsnæðisins. Haldin var vinnustofa þar sem gerðar voru nokkrar útgáfur af heilsugæslu framtíðarinnar. Það var í fyrsta sinn sem sú leið var farin hér á landi.  Margar hugmyndir komu fram og á endanum var valin sú leið sem var flestir gátu sætts á. Fjölmargir teymisfundir voru í framhaldinu, þar sem farið var yfir teikningar og ræddar útfærslur í samvinnu við arkitekt hússins, Guðjón Magnússon.

Ein mesta nýjungin er hjarta stöðvarinnar, vinnuaðstaða og 4 móttökuherbergi, sem bætir aðstöðu til að sinna opinni móttöku og hefur stuðlað að aukinni teymisvinnu starfsfólks. Aðstaða hjúkrunarfræðinga breyttist hvað mest við flutningana. Áður var vinnuaðstaða fyrir þrjá hjúkrunarfræðinga í 7 fermetra gluggalausu herbergi en er nú í björtu rými í hjarta stöðvarinnar. 

Nýju húsnæði og bættri starfsaðstöðu fylgir betri líðan í starfi sem kom skýrt fram í nýlegri starfsánægjukönnun sem sýndi að starfsfólk stöðvarinnar finnur mikinn mun á aðbúnaði sínum. Það skilar sér án efa áfram, starfsemin blómstrar og það fer vel um skjólstæðinga í þessu nýja húsnæði. 

Það má því með sanni segja eftir árs dvöl í þessu nýja glæsilega 1200 fermetra húsnæði að þar fer afar vel um fólk. 

Í húsnæði stöðvarinnar starfar einnig Heilaörvunarmiðstöðin (HÖM) sem ný meðferðareining innan Geðheilsuteyma HH .Þar nú er veitt svokölluð TMS-meðferð við meðferðarþráu (unipolar) þunglyndi.

“Það eru margir sem koma að því að byggja nýja heilsugæslu og ómögulegt að telja alla upp. Fyrrverandi stjórnendur, Svanhildur Þengilsdóttir, Þórir Björn Kolbeinsson og Dagný Hængsdóttir, báru hitann og þungann hér innanhúss af undirbúningi verkefnisins” segir Jórunn Edda. “Við færum við þeim og öllum öðrum sem komu að þessu stóra verkefni kærar þakkir”.

“Hér vinnur mjög gott starfsfólk, margar stéttir vinna saman að því að sinna fjölbreyttum verkefnum alla daga með gildi HH að leiðarljósi: virðingu, samvinnu og fagmennsku. Við sjáum því mikil tækifæri til að sinna skjólstæðingum okkar enn betur, og vaxa og dafna í takt við vaxandi Mosfellsbæ” segir Jórunn að lokum. 

Hér má sjá nokkrar myndir frá opnuninni sem Anna Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur á stöðinni tók.