Heilsugæslan undirbýr þjónustu við flóttafólk frá Úkraínu

Mynd af frétt Heilsugæslan undirbýr þjónustu við flóttafólk frá Úkraínu
15.03.2022
Starfsfólk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins undirbýr nú þjónustu við flóttafólk frá Úkraínu, en búist er við að talsverður fjöldi fólks á flótta undan stríðinu í Úkraínu komi hingað til lands á næstunni.

Heilsugæslan mun hafa það hlutverk að veita flóttafólkinu læknisskoðun eftir komuna til landsins. Fólkið verður skimað fyrir berklum, sárasótt, lifrarbólgu og HIV, auk þess sem líklegt er að það verði skimað fyrir Covid-19 segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá verður einnig skimað fyrir andlegri vanlíðan. 

Farið verður eftir verklagsreglum Landlæknis sem mæla fyrir um læknisskoðun fyrir alla sem óska eftir dvalarleyfi hér á landi.

Nú er unnið að því að finna heppilegt húsnæði fyrir læknisskoðunina auk þess sem skipuleggja þarf starfsemi Heilsugæslunnar til að tryggja að starfsfólk geti sinnt þessu verkefni. Þegar hefur verið ráðið inn starfsfólk til að sinna þjónustunni og má búast við því að ráða þurfi fleiri ef fjöldi flóttafólks verður jafn mikill og búast má við.

Auk þess að skima fyrir sjúkdómum verður flóttafólkinu boðið að fá bólusetningu við Covid-19, hafi það ekki þegar verið fullbólusett.