Nýtt húsnæði heimahjúkrunar tekið í notkun

Mynd af frétt Nýtt húsnæði heimahjúkrunar tekið í notkun
03.03.2022
Nýtt húsnæði heimahjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var formlega tekið í notkun í vikunni. Um 110 starfsmenn munu hafa vinnuaðstöðu í húsnæðinu, sem er staðsett við Miðhraun í Garðabæ.

Heimahjúkrun HH  sinnir einstaklingum  í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Á hverjum tíma er verið að þjónusta um 800 skjólstæðinga. Á síðasta ári fengu um 1.600 skjólstæðingar þjónustu og voru vitjanir  um 160 þúsund, segir Sigrún Kristín Barkardóttir, svæðisstjóri heimahjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Heimahjúkrun HH sinnir skjólstæðingum frá 18 ára aldri en flestir eru á aldrinum 75 til 95 ára.

Heimahjúkrun er gríðarlega mikilvægur þáttur heilbrigðisþjónustunnar og með öldrun þjóðarinnar er ljóst að heimahjúkrunin á eftir að verða enn mikilvægari í framtíðinni, sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þegar nýtt húsnæði heimahjúkrunar HH var tekið í notkun.. 

Um helmingur starfsfólks heimahjúkrunar HH eru sjúkraliðar, um þriðjungur hjúkrunarfræðingar og við það bætast félagsliðar, iðjuþjálfar, geðhjúkrunarfræðingur, ritari og annað starfsfólk. Að jafnaði eru um 55 til 60 starfsmenn á dagvöktum, en starfsfólkið skiptist í ellefu heimahjúkrunarteymi sem sinna hvert um sig 60 til 70 skjólstæðingum

Tólfta teymið sem starfar hjá heimahjúkruninni er  endurhæfingarteymi sem er fjölfaglegt og gengur þvert á önnur teymi. Það sinnir skjólstæðingum í ákveðinn tíma og aðstoðar þá við að ná sínum markmiðum, en skjólstæðingar teymisins eru yfirleitt einstaklingar sem hafa getu til að verða aftur sjálfbjarga. 

„Þetta nýja húsnæði er sérhannað undir þessa starfsemi og mun breyta mjög miklu fyrir okkar starfsemi,“ segir Sigrún Kristín. „Hugsunin með hönnuninni er að öllu starfsfólki líði vel í vinnunni. Vinnusvæðið er opið og hefur góða hljóðvist og í því eru fundarherbergi af ólíkum toga. Einstaklega björt og rúm kaffistofa er í hinum enda hússins þar sem hægt er að setjast niður án þess að trufla aðra vinnu.“