Bólusetning skólabarna gegn COVID 19

Mynd af frétt Bólusetning skólabarna gegn COVID 19
13.12.2021

Uppfært 5. janúar - Vegna breyttra aðstæðna verða börnin bólusett í Laugardalshöll.

Nánari upplýsingar verðar birtar 6. janúar.

Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að foreldrum barna 5-11 ára verði boðið að láta bólusetja börn sín.

Bólusetningar grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu fara fram í skólum barnanna vikuna 10. til 14. janúar 2022. Boð verða send til foreldra í vikunni á undan. 

Samvinna

Heilsugæslustöðvar og aðgerðastjórn vinna saman að verkefninu og fá aðstöðu innan skólanna í samráði við skólayfirvöld.

Allir sem að verkefninu koma eru nú að undirbúa framkvæmd bólusetninganna til að allt gangi eins vel og hægt er. Lögð er áhersla á öryggi, trúnað og að upplifun barnanna verði góð. 

Heilsugæslustöðvar skipuleggja bólusetningar í sínum skólum og skólahjúkrunarfræðingar eru þar í lykilhlutverki. Gert er ráð fyrir að læknir og sjúkraflutningamaður verði líka á bólusetningastað.

Nú eru aðgerðastjórn og skólahjúkrunarfræðingar að taka út aðstæður á hverjum stað með skólastjórnendum.

Foreldrar eru hvattir til að ræða við börn sín um bólusetningar og að ekki hafi allir foreldrar sömu skoðun á þeim. 

Boðanir og samþykki

Bólusetning er alltaf val.

Foreldrar sem eru með forræði (lögheimilisforeldrar) munu fá skilaboð þar sem þeim boðið að: 

  • skrá barn sitt í bólusetningu
  • skrá aðra aðila sem heimilt er að fylgja barninu í bólusetningu
  • hafna/bíða með bólusetningu

Þegar foreldri hefur skráð barn sitt í bólusetningu fær foreldrið sent strikamerki. Það er á ábyrgð foreldra að senda strikamerkið áfram ef það vill að einhver annar fylgi barninu í bólusetningu. Það að sýna strikamerki á bólusetningastað er því ígildi samþykkis.

Ef einhver kemur ekki með strikamerki er kennitölu barns flett upp. Þá sést hver er lögheimilisforeldri og hverjir eru skráðir með leyfi til að mæta með barnið. Í þeim tilfellum er spurt um skilríki.

Bólusetningadagur er stuttur skóladagur

  • Yngstu börnin mæta fyrst kl. 9:00 og síðan eldri bekkir koll af kolli. Það er mismunandi eftir stærð árganga og fjölda starfsmanna í bólusetningu í hverjum skóla hvenær hver árgangur á að mæta.  Þetta verður allt kynnt vel með góðum fyrirvara.
  • Foreldrar mæta með börnin í skólann á uppgefnum tíma 
  • Eftir bólusetningu fylgja foreldrar barni á biðsvæði og bíða með barninu.
  • Eftir bið yfirgefa foreldrar skólann en börnin fara á sinn stað í skólanum. Þannig fyllist skólinn jafnt og þétt.

Algengar spurningar

Hvað með börn sem hafa fengið COVID-19? 
Þau eiga að bíða með bólusetningu í 3 mánuði eftir sýkingu.

Ef foreldri á fleiri en eitt barn í skólanum má koma með bæði/öll á sama tíma? 
Já og best er að koma þegar eldra/elsta barnið var boðað því þau koma seinna og þá eru jafnaldrar yngri barnanna mætt.

Ef barn kemst ekki í bólusetningu á boðuðum tíma verður hægt að fá bólusetningu síðar?
Já, fyrirkomulag verður kynnt þegar nær dregur hér á vefnum. 

Hver veit hvort barn er bólusett?
Valdir starfsmenn í heilsugæslu hafa aðgang að bólusetningakerfinu. Þeir eru allir bundnir af þagnarskyldu. Reynt verður að hafa skipulag þannig að ekki sé vitað í skólanum hvort barn er bólusett eða ekki.

Ef foreldri barns hafnar/bíður með bólusetningu má barnið mæta í skólann á sama tíma og hin börnin í árganginum? 
Já, það er í lagi. Þá fer barnið beint í stofuna sína meðan á bólusetningu árgangsins stendur. Barnið er þá að mæta á sama tíma og börn sem fóru í bólusetninguna.

Hvað með elstu leikskólabörnin?
Við byrjum að bólusetja grunnskólabörnin. Svo verður leikskólabörnum fæddum árið 2016 boðin bólusetning. Leikskólabörnum sem fædd eru 2017 býðst einnig bólusetning þegar þau verða 5 ára. Fyrirkomulag verður auglýst síðar hér á vefnum og kynnt vel fyrir foreldrum.