Klínískir sérnámslyfjafræðingar í heilsugæslu

Mynd af frétt Klínískir sérnámslyfjafræðingar í heilsugæslu
25.01.2021

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tekur þátt í spennandi þróunarverkefni sem felst í  því að fá sérnámslyfjafræðinga í klínískri lyfjafræði til starfa.

Um er að ræða útskrifaða lyfjafræðinga sem eru auk þess að klára sitt þriðja ár í sérnámi í klínískri lyfjafræði við Háskóla Íslands. Verkefnið stendur yfir næstu fimm mánuði og munu tveir sérnámslyfjafræðingar taka þátt í verkefninu, þau Halla Laufey Hauksdóttir og Heimir Jón Heimisson. Þau munu starfa einn dag í viku hvort hjá Heilsugæslunni Efra-Breiðholti og Sólvangi. 

Verkefni þeirra verður einkum að fara yfir lyfjalista hjá eldri skjólstæðingum sem eru á mörgum lyfjum og draga úr lyfjatengdum vandamálum. Lyfjatengd vandamál eru oft orsök sjúkrahúsinnlagnar, valda heilsutjóni og oft miklum kostnaði fyrir samfélagið.

Rannsóknir hafa sýnt að í langflestum tilvikum hefði mátt koma í veg fyrir lyfjatengd vandamál með vandaðri lyfjayfirferð. Klínískir lyfjafræðingar geta verið lykilaðilar í að auka gæði og öryggi í lyfjamálum einstaklinga í heilsugæslu.

Við bjóðum þau hjartanlega velkomna til starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.