Hreyfipillan er besta forvörnin

Mynd af frétt Hreyfipillan er besta forvörnin
12.11.2020

Einn af kennurunum mínum í læknadeild Háskóla Íslands sagði einhverju sinni við okkur nemendur sína að ef hreyfing væri tafla eða pilla myndu allir læknar skrifa upp á slíka lyfseðla fyrir skjólstæðinga sína. Ég tek heilshugar undir þessi orð. Tel að hreyfipillan yrði notuð bæði sem forvörn og meðferð og líklegast yrðu allir, veikir jafnt sem hraustir, settir á hana. Ætli þetta yrði ekki mest selda lyf í heimi?

Myndi lengja lífslíkur

Hreyfipillan yrði sennilega besta forvörn sem völ væri á fyrir til að mynda hjarta- og æðasjúkdóma, verkjasjúkdóma, krabbamein og svo mætti lengi áfram telja. Pillan myndi draga umtalsvert úr líkum á brjóstakrabbameini hjá konum sem og blöðruhálskirtilskrabbameini meðal karla. Þannig leikur enginn vafi á því að pillan myndi í raun lengja lífslíkur fólks töluvert. Hreyfipillan nýttist líka sem viðbótarmeðferð við fjölda krabbameina, hjarta- og æðasjúkdóma, kvíða, þunglyndi og jafnvel sem aðalmeðferð við langvinnum verkjum og hrumleika.

Þessi ofurpilla fengist í öllum regnbogans litum allt eftir því hvaða eiginleika hún ætti að hafa, eins og til dæmis að styrkja vöðva, þol eða andlega vellíðan. Líklega væru þó flestar gerðir hreyfipillurnar gæddar fleiri en einum eiginleika. Eitt af því besta við hreyfipilluna væri þó að hún væri nær laus við allar aukaverkanir, ólíkt öðrum lyfjum. Það er augljóst að það væri öllum til hagsbóta að taka inn þetta undralyf, sem í raunveruleikanum er ekki til.

30 mínútur á dag

Að hreyfa sig er oft jafngóð lausn og sú að taka lyf, enda þótt hún krefjist aðeins meira framlags af okkar eigin hálfu. Lausnin er hreyfing. Við getum sjálf farið út að ganga eða hreyft okkur með öðru móti. Sjálfur hjóla ég oftast til vinnu en hreyfi mig einnig mér til ánægju og heilsubótar. Hreyfingin hefur alla sömu kosti og hreyfipillan. Hún þarf þó hvorki að kosta mikla peninga né tíma, en ráðleggingar landlæknis eru þær að fólk ætti að hreyfa sig í 30 mínútur á dag, fimm daga vikunnar.

Samkvæmt viðmiðum landlæknis þarf hreyfingin að vera af meðal-mikilli ákefð en það þýðir að ganga rösklega eða skokka létt svo hjartslátturinn rísi aðeins. Nánari útlistun á viðmiðum landlæknis má finna á heilsuvera.is. Þetta eru þó einungis lágmarksviðmið og rannsóknir sýna að þú getur aukið ávinninginn með því að hreyfa þig meira. Það má hreyfa sig upp í margföld lágmarksviðmið án þess að það hafi ókosti í för með sér. Spjallgöngutúr með vini eða vinkonu er líklega of hægur til þess að ná þessum lágmarksviðmiðunum, þó hann hafi vissulega ýmis önnur jákvæð áhrif.

Ganga, hlaupa eða hjóla

Fyrir þá sem eiga erfitt með að byrja að hreyfa sig hefur heilsugæslan úrræði eða svokallaða hreyfiseðla. Hreyfiseðillinn er meðferðarkostur við sjúkdómum eða einkennum þeirra sjúkdóma sem vitað er að regluleg hreyfing getur haft umtalsverð áhrif á, eins og sykursýki 2 eða offitu. Seðlar þessir eru gerðir í samráði við hvern og einn sjúkling og sett upp raunhæf áætlun til þess að auka við hreyfingu. Áætluninni er svo fylgt eftir af hreyfistjóra. Það er aldrei of seint að byrja því hreyfingin er bæði gagnleg sem forvörn og meðferð og ávinningurinn því mikill. Ég legg því til að allir hefji meðferð með „hreyfipillunni“ og fari út að ganga, hlaupa, hjóla eða í aðra hreyfingu sem gott gerir.


Höfundur er Ívar Örn Clausen læknakandídat á Heilsugæslunni Mosfellsumdæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.