Mikilvægi öruggrar tengslamyndunar

Mynd af frétt Mikilvægi öruggrar tengslamyndunar
05.11.2020

Ekkert spendýr er jafn ósjálfbjarga og nýfætt barn. Lengi vel var mikilvægi foreldra aðallega talið felast í að veita barni fæðu og vernd fyrir utanaðkomandi hættum. Nú orðið beinist athyglin að tilfinningatengslum þeirra á milli og nauðsyn þess að foreldrar og aðrir fullorðnir sem annast barnið haldi streitu og vanlíðan þess innan marka, hvort sem hún stafar af hungri, þreytu, ótta eða öðru. Þá er ómetanlegt fyrir þroska og sjálfsmynd barna að foreldrarnir geti glaðst yfir tilveru þeirra.

Reynslan mótar barnsheilann

Þegar barn fæðist er heili þess mjög óþroskaður. Mótun heilans veltur mjög á reynslu barnsins og er m.a. undir áhrifum hormóna en mikill munur er á áhrifum vellíðunar- og streituhormóna á vöxt hans og þroska. Að sama skapi skiptir sköpum fyrir öryggistilfinningu barns og sjálfsmynd hvort því er svarað á viðeigandi hátt jafnt og þétt. Einnig hvort komið er hranalega fram við barnið eða það látið afskipt. Ung börn geta ekki stjórnað líðan sinni eða dregið úr streitu heldur verða foreldrar eða aðrir fullorðnir að grípa inn í. Með tímanum lærir barnið að annast sjálft sig á sama hátt og hinir fullorðnu gera.

Tengslamyndun

Í þessu umönnunarferli fyrstu áranna þróast tengslamyndun foreldra og barns. Í öruggum tengslum upplifir barnið foreldri sem örugga höfn sem það getur treyst á og leitað skjóls og huggunar hjá þegar því líður illa. Vitandi af öruggu höfninni finnur barnið fyrir nægilegu öryggi til að fara frá foreldrinu og kanna nýjar slóðir. Það getur gleymt sér í leik og síðar í námi í fullvissu um að öryggi sé innan seilingar. Í óöruggum tengslum dylja börn fremur vanlíðan sína og leita síður til foreldranna (og síðar kennara) eða eru mjög krefjandi, eins og þau telji nauðsynlegt að halda stöðugt í athygli foreldranna. Hvort tveggja veldur barni mikilli streitu sem getur haft áhrif á félagsleg tengsl og heilsu þess fram á fullorðinsár.

Þrátt fyrir góðan vilja og ást til barnsins getur ýmislegt truflað getu foreldra til að vera örugg höfn og njóta samvista við barnið, svo sem óöryggi, kvíði, veikindi þeirra eða barnsins, áhyggjur og álag. Fyrir þá sem eiga erfiða reynslu úr eigin uppeldi eða hafa orðið fyrir áföllum getur umönnun barns virkað sem kveikja á gamlan sársauka. Við slíkar aðstæður getur reynst þrautin þyngri að lifa sig inn í líðan barns og setja þarfir þess í forgang. Þá getur verið nauðsynlegt að leita hjálpar. Frá árinu 2008 hefur Miðstöð foreldra og barna og FMB-teymi Landspítalans veitt meðferð fyrir foreldra og ungbörn sem glíma við vanlíðan á meðgöngu og eftir fæðingu barns.

Geðheilsuteymi fjölskylduvernd

Nú hafa teymin verið sameinuð og flutt til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heita Geðheilsuteymi – fjölskylduvernd. Markhópur þess er verðandi foreldrar og foreldrar með ung börn sem þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu en er veitt á heilsugæslustöðvum. Markmið meðferðar er að draga úr vanlíðan foreldra og stuðla að öruggri tengslamyndun barna. Teymið er þverfaglegt og nær til allra heilbrigðisumdæma. Við hvetjum alla til að vera vakandi fyrir líðan foreldra og ungra barna og leita hjálpar ef þörf krefur. Á heilsuvera.is er fræðsluefni um þroskaferlið sem getur verið skemmtilegt og gagnlegt að kynna sér.

Höfundur er Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir hjá Geðheilsuteymi fjölskylduverndar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.