Geðrækt á tímum Covid-19

Mynd af frétt Geðrækt á tímum Covid-19
15.10.2020

Ekki er ofsögum sagt að geðheilsa okkar allra sé eitt stærsta áskorunarefni ársins 2020. Árið hefur einkennst af mikilli óvissu um hvað hver dagur mun fela í skauti sér og krefst mikils æðruleysis af okkur. 

Covid-19 felur ekki einungis í sér líkamlega heilsuvá heldur tekur baráttan við þennan illskæða sjúkdóm mikið á andlega. Frasinn „Við erum öll almannavarnir“ er orðinn okkur vel kunnugur. Hann minnir okkur á mikilvægi samstöðu og samheldni, að við komumst ekki í gegnum þetta ein og óstudd og að mikilvægt er fyrir hvert og eitt okkar að leggja af mörkum eins og við getum og hlúa hvert að öðru. Til að vera fær um það þá þurfum við auðvitað líka að hlúa að okkur sjálfum.

Andlegt ástand er lúmskt 

Þó að ýmsu sé hægt að venjast þá er ástandið í grunninn nýtt og framandi fyrir okkur og viðbrögð okkar við því geta þá líka verið okkur framandi. Andlega álagið sem fylgir því að vera stöðugt á varðbergi getur verið lúmskt og stundum áttum við okkur ekki almennilega á áhrifum þess fyrr en það er orðið langvarandi og varnirnar sem við komum okkur upp til að þrauka fara að gefa eftir. Ekki bætir úr skák að hefðbundnar lausnir verða margar erfiðari eða jafnvel ómögulegar í því raski á daglegu lífi og hvers kyns starfsemi sem fylgir sóttvarnaaðgerðum. 

Við höfum minni möguleika en áður á því að rækta félagsleg tengsl, skreppa í líkamsrækt eða sund eða sækja hvers kyns afþreyingu. Mörg okkar eru síðan að lenda í áföllum á borð við að missa vinnu eða missa af alls kyns öðrum tækifærum og þurfum því að endurskoða fyrirætlanir okkar verulega. Það er þekkt og viðurkennt að hvers kyns rask á högum okkar af slíku tagi felur í sér gríðarlegt andlegt álag og reynir mjög á þolgæðin. 

Við svona krefjandi aðstæður er mikilvægt að huga að því að vera meðvituð um hvað er í gangi hjá sjálfum okkur og hvert öðru og gefa okkur svigrúm til að finna fyrir því sem við finnum. Tala upphátt og spyrja um líðan hvert annars, leita inn á við og lækka kröfurnar sem við gerum til sjálfra okkar. Stöðluð geðráð á borð við að huga vel að því hvernig við nærumst, hvernig við sofum og hvernig við tæklum neikvæðar hugsanir eiga við nú sem aldrei fyrr. 

Batahugmyndafræðin sem við hjá geðheilsuteymum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vinnum út frá snýst um að mæta slíkum áskorunum með því að skoða styrkleika okkar gagngert, fara yfir hvað það er sem veitir okkur von og viðheldur okkur og nærir. Út frá því er hægt að setja niður plan um hvernig við viljum sinna sjálfum okkur. Einfaldar aðferðir á borð við að skipuleggja vikuna, halda í rútínu, skrifa niður skipulega hvar við erum stödd og hvert við viljum stefna til framtíðar (eftir því sem það er hægt í núverandi ástandi) geta gert mikið. Hugleiðslu- og slökunartækni er hægt að beita heima fyrir eða úti í náttúrunni. Netsamskipti er hægt að virkja til þess að halda sambandi og jafnvel mynda ný tengsl. Verum ófeimin við að deila ráðum hvert með öðru og nýta þá þekkingu sem við, hvert og eitt okkar, búum yfir á því hvernig takast má á við erfiðar aðstæður. Á vefsíðunni covid.is/undirflokkar/lidan-okkar er að finna góðar almennar upplýsingar um líðan og hvernig er hollt að bregðast við áhyggjum.

Hjálp ekki feimnismál 

Það er algjörlega eðlilegt að ráða hreinlega ekki við aðstæður án faglegrar hjálpar. Slíkt á aldrei að vera nokkurt einasta feimnismál, að leita sér hennar. Heilsugæslan er til staðar fyrir geðheilsu jafnt sem aðra heilsu. Þangað getur þú alltaf leitað þér aðstoðar á því sviði sem öðrum heilsutengdum.

Höfundur er Halldór Auðar Svansson, notendafulltrúi í geðheilsuteymi HH vestur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.