Mörg þúsund sýni á dag

Mynd af frétt Mörg þúsund sýni á dag
09.10.2020

Á Suðurlandsbraut 34 fara fram COVID-19 sýnatökur í umsjón Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þessi staðsetning varð fyrir valinu vegna þess að húsnæðið var tómt og eigendur voru tilbúnir að lána það í þetta mikilvæga verkefni. Gott aðgengi er að húsinu og  það er miðsvæðis.

Það eru líka sýnatökustaðir á landsbyggðinni. Þeir sem eru boðaðir í sýnatöku geta farið á þann sýnatökustað sem næstur er og framvísað strikamerki. Það er mismunandi hvenær er opið og hvort þarf að panta tíma.

Sýnatökur hófust á Suðurlandsbrautinni í júlí þegar reglur um seinni skimun á landamærum breyttust. Fljótlega var svo ákveðið að færa einkennasýnatökur af heilsugæslustöðvunum þangað til að létta álagi af stöðvunum.

Þessi viðamikla starfsemi hefur verið að þróast síðustu vikur og mánuði og að jafnaði eru um 20-30 manns að störfum á hverri vakt. Um 80-100 starfsmenn alls taka vaktir í sýnatökunum. Í starfsmannahópnum eru hjúkrunarfræðingar og læknar frá heilsugæslustöðvum ásamt sérþjálfuðu starfsfólki frá Öryggismiðstöðinni. Margir af þessum starfsmönnum voru fyrst í landamæraskimun á flugvellinum og hafa mikla reynslu.

Sýnatökustöðin er opin alla daga vikunnar. Virka daga er opið frá kl. 8:30 til 15.30 en styttra um helgar. Opnunartími er lengdur þegar mikið álag er. Daglega eru tekin mörg þúsund sýni, oft 400-600 á klukkustund. 

Leitast er við að hafa flæðið skilvirkt í gegnum húsið þannig að fólk þurfi ekki að stoppa lengi. Áhersla er lögð á að einungis þau sem eru að koma í sýnatöku mæti á staðinn nema þau þurfi aðstoð.

Mismunandi er eftir tegund sýna hvar fólk á að koma inn í húsið. Þeir sem eru að koma í einkennasýnatökur fara inn um inngang til vinstri. Hægri inngangurinn er fyrir þá sem eru að koma í seinni sýnatöku á landamærum, en einnig fyrir slembi skimun og sýnatöku til þess að losna úr sóttkví. 

Við hvorn inngang  tekur starfsmaður í hvítum galla á móti gestum, skoðar strikamerki og sprittar hendur. Allir þurfa að vera með grímu, passa upp á 2 metra fjarlægð og fara í gegnum allt ferlið án þess að snerta neitt.

Nú er verið að leysa fjölda barna úr sóttkví og þeim er sinnt í séraðstöðu á annarri hæðinni. Mikilvægt er að standa vel að sýnatöku barna og hjúkrunarfræðingar taka yfirleitt þau sýni.

Þau sem koma í sýnatökur á Suðurlandsbraut 34 eru næstum öll til fyrirmyndar. Þau mæta stundvíslega, eru tilbúin með strikamerkið, fara nákvæmlega eftir fyrirmælum og eru kurteis við starfsmenn. Það hjálpar mikið og gerir allt ferlið auðveldara fyrir alla. Þó að allir séu með grímur leynir bros sér ekki.

Við bendum einnig á þetta stutta myndband þar sem farið er yfir sýnatökuferlið frá A-Ö.

 

 

 

 

 

 

Fréttin var uppfærð 12. október 2020