Draga ber úr oflækningum

Mynd af frétt Draga ber úr oflækningum
27.08.2020

Að taka skynsamlegar ákvarðanir (Choosing Wisely) er erlend herferð í lækningum sem miðar að því að draga úr rannsóknum, aðgerðum og meðferðum sem sjúklingar hafa ekki gagn af og sem í versta tilfelli geta skaðað þá.

Hlutverk herferðarinnar er að efla samtöl milli lækna og sjúklinga og með því hjálpa sjúklingum að velja meðferð sem er:

  • Byggð á gagnreyndri læknisfræði
  • Ekki endurtekning á rannsókn eða meðferð sem þegar hefur verið gerð
  • Óskaðleg
  • Nauðsynleg 

Of mikil meðferð eða of snemma er ekki alltaf það besta fyrir sjúklinginn. Ítarleg rannsókn er heldur ekki alltaf æskileg. Stundum skapast aðstæður þar sem læknar meðhöndla eða rannsaka of mikið, sem getur skaðað sjúklinginn. Herferðin að taka skynsamlegar ákvarðanir ætti að auðvelda læknum og sjúklingum að forðast það.

Ábending er lykilhugtak

Markmið herferðarinnar er að draga úr ofgreiningu og oflækningum. Aðalskilaboð herferðarinnar eru að meira er ekki alltaf betra. Fjöldi erlendra sérgreinafélaga lækna og sjúklingasamtaka sem hafa tekið þátt í herferðinni hefur gert tillögur um/til að draga úr skaðlegri notkun rannsókna, aðgerða og meðferða. Tillögunum er ætlað að vekja samtal um hvað sé viðeigandi og nauðsynleg meðferð. Þar sem aðstæður hvers sjúklings eru einstakar gætu læknar og sjúklingar notað tillögurnar til að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi viðeigandi rannsóknir og meðferðir.

Hér að neðan eru nefndar 13 tillögur um rannsóknir, aðgerðir eða meðferðir sem læknar og sjúklingar ættu að hafa í huga.

1. Ekki er ábending fyrir myndgreiningu vegna verkja í mjóbaki nema grunur sé um undirliggjandi sjúkdóm. Myndgreining af mjóhrygg innan sex vikna bætir ekki horfur.

2. Ekki nota sýklalyf við sýkingum í efri öndunarfærum sem eru líklega orsakaðar af veirum, svo sem kvefpestir eða við veikindi, sem batna án meðferðar eins og skútabólga sem hefur staðið skemur en sjö daga.

3. Ekki skal skima einkennalausa sjúklinga eða sjúklinga með litla áhættu með lungnamynd eða hjartalínuriti.

4. Ekki skima konur yngri en 23 ára og ekki eldri en 65 ára fyrir krabbameini í leghálsi.

5. Ekki skima árlega með blóðrannsóknum nema það sé augljós ábending um að sjúklingur sé í áhættuhóp.

6. Ekki mæla reglulega D-vítamín hjá fullorðnum með litla áhættu.

7. Ekki er mælt með reglulegri skimun fyrir brjóstakrabbameini með brjóstamyndatöku fyrir konur sem eru á aldrinum 40-49 ára í meðaláhættu. Sérstakt mat á óskum og áhættu hverrar konu ætti að vera leiðbeinandi um umfjöllun og ákvörðun varðandi skimun á brjóstamyndatöku hjá þessum aldurshópi.

8. Ekki ætti að gera árlegar heilsufarslegar skoðanir hjá einkennalausum fullorðnum einstaklingum án marktækra áhættuþátta.

9. Ekki skima fyrir beinþynningu hjá sjúklingum með litla áhættu með beinþéttnimælingu. (DEXADual-Energy X-ray Absorptiometry).

10. Ekki ráðleggja sjúklingum sem ekki eru með insúlínháða sykursýki að mæla reglulega blóðsykur milli eftirlits hjá lækni.

11. Ekki panta skjaldkirtilspróf hjá einkennalausum sjúklingum.

12. Sterkum (ópíóíð) verkjalyfjum skal aðeins ávísað strax í kjölfar aðgerðar eða við bráðum miklum verkjum.

13. Ekki hefja meðferð með sterkum verkjalyfjum (ópíóíð) til lengri tíma vegna langvinnra verkja fyrr en reynd hefur verið önnur meðferð en lyfjameðferð eða meðferð með verkjalyfjum án ópíóíða. 

Á vefsíðunni www.choosingwisely.org má lesa meira um herferðina. Á heilsuvera.is eru gagnreyndar upplýsingar um heilsu og áhrifaþætti hennar.

Höfundar eru Kristjana Kjartansdóttir heimilislæknir og Kristján Oddsson svæðisstjóri og fagstjóri lækninga Heilsugæslunni Hamraborg.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.