Góð ráð við vægum hálsáverkum í umferðinni

Mynd af frétt Góð ráð við vægum hálsáverkum í umferðinni
13.08.2020

Ekki er óalgengt að til heilsugæslunnar leiti fólk sem hefur lent í nýlegum minni háttar árekstri. Flest umferðarslys eru sem betur fer pústrar þegar bílarnir rekast saman á litlum hraða. Líkaminn býr sig í skyndingu undir það versta en þegar sjálfur áreksturinn er genginn yfir stígur ökumaður út úr bílnum og prísar sig sælan fyrir að hann hafi sloppið að mestu. Hann gerir sér grein fyrir að hann hefur slengst til í sætinu, sem betur fer í belti. Hann þreifar sig allan, engin sár, engin sjáanleg meiðsli - sem betur fer! 

Þrálát einkenni sem trufla daglegt líf 

Algengast er að höfuðið slengist fram á við eða til hliðar, hálsinn hafi tognað og hryggurinn einnig fengið slink. Nokkrum klukkustundum síðar fara vöðvarnir að stífna og fram koma stirðleiki og verkir við hreyfingu. Sjúklingurinn veit eflaust að þetta getur ekki verið alvarlegt úr því það kom ekki fram strax. Engu að síður ónáðar þetta og oft koma fram þrálát einkenni sem trufla svefn og daglegt líf. 

Á þessu stigi er oft leitað til læknis sem fer í gegnum söguna og skoðar sjúkling. Það er sjaldnast alvarleg einkenni að finna, einungis merki um tognun og lítið annað. Röntgenmyndir eru eðlilegar, engin brot greinast. 

Þegar þessir sjúklingar eru skoðaðir fer vel á því að gera grein fyrir því hvað veldur verknum og af hverju hann er þrálátur. Náttúrulegt er að sjúklingur búist við því að hann skáni þegar hann hvílist, en í þessu tilfelli gerist það alls ekki. Þvert á móti, hann er verstur þegar hann rís upp á morgnana eftir svefn því þá eru vöðvarnir stífir, stundum hreinlega erfitt að komast fram úr rúminu. Hvað er til ráða? 
Ekki er úr vegi að útskýra fyrir sjúklingi hvernig á verkjunum standi því stutt er í það að hann fyllist leiða og örvæntingu ef hann er með óþægindi og verki ef til vill svo vikum og mánuðum skipti.

Viðbragð veldur verk 

Hvað hefur gerst? Í stuttu máli þegar tognar á vöðva myndast eftir nokkurra klukkutíma bólgusvörun og þetta viðbragð veldur verk. Verkurinn á hinn bóginn veldur því að vöðvinn dregst saman og þessi samdráttur veldur verk. Það myndast þrálátur vítahringur sem ekki gefur sig svo auðveldlega heima í sófanum án þess að nokkuð sé gert. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir sjúklinginn að fá útskýringar á því hvað veldur verknum – að það sé ekki stór skaði heldur seigt viðbragð sem er náttúrlegt og að það muni hverfa með réttum aðgerðum. Það tekur tíma en allt mun ganga vel. 

Sund er gott ráð 

Hvað er þá best að gera? Það þarf að gera tvennt: 

Að minnka verkinn með mildum, ekki ávanabindandi, lyfjum sem tekin eru reglubundið í nokkrar vikur, hæst nokkra mánuði og sætta sig í byrjun við að verkurinn minnki um 50%, en hverfi ekki alveg. Þolinmæði!

Að hreyfa sig. Sjúkraþjálfarar gefa góð ráð um æfingar en jafnframt er gott að synda reglubundið og af þessu tilefni búa til nýjar venjur. Formúlan er þessi: Að synda í 5 mínútur á dag, 5 daga vikunnar í 5-10 vikur. 

Leitaðu til heilsugæslunnar og fagfólks þar til að fá aðstoð vegna þrálátra verkja. Einnig eru upplýsingar á heilsuvera.is. 


Guðmundur Pálsson sérfræðingur í heimilislækningum, Heilsugæslunni Grafarvogi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu