Kynsjúkdómar - sýnum ábyrgð

Mynd af frétt Kynsjúkdómar - sýnum ábyrgð
06.08.2020

Kynsjúkdómar hafa fylgt manninum frá örófi alda og valdið honum ýmsum óþægindum. Þetta eru sjúkdómar af völdum baktería eða veira sem eiga það sameiginlegt að smitast milli einstaklinga við alls kyns kynmök. Margir þessara sjúkdóma valda einkennum við kynfæri og sumir geta einnig gefið einkenni frá öðrum líffærum. Flestir kynsjúkdómar smitast auðveldlega við nána líkamlega snertingu, eru oft einkennalausir og því erfitt að varast þá. Talið er að jafnvel helmingur þeirra sem fá kynsjúkdóm viti ekki að þeir eru smitaðir því þeir finna ekki fyrir neinum einkennum.

Geta verið hættulegir

Kynsjúkdómar geta verið hættulegir og því mikilvægt að koma í veg fyrir smit og meðhöndla þá ef smit verður. Algengustu kynsjúkdómar á Íslandi eru klamydía, kynfæraáblástur (herpes) og kynfæravörtur (HPV-veira). Sjaldgæfari eru lekandi, HIV og alnæmi, lifrarbólga B, Sárasótt, tríkómónas sýking, flatlús og kláðamaur.
Þeir sjúkdómar sem orsakast af bakteríum eða sníkjudýrum eru auðlæknanlegir með sýklalyfjum, t.d. klamydía og lekandi. Veirusjúkdóma eins og kynfæraáblástur, kynfæravörtur, lifrarbólgu B og HIV er erfiðara að lækna og geta fylgt smituðum einstaklingi ævilangt. Einkenni er þó hægt að meðhöndla og halda niðri og draga úr hættu á að smita aðra. Bólusetning er til gegn nokkrum kynsjúkdómum s.s. lifrarbólgu B og HPV-veiru. 

Síðustu ár hefur mikill árangur náðst í baráttu við HPV-veirur sem sumar valda vörtum á kynfærum og aðrar geta leitt til frumubreytinga í leghálsi. Árangurinn hefur náðst með bólusetningu hjá unglingsstúlkum. 

Tíðni kynsjúkdóma hefur verið hærri hér á landi en í nágrannalöndunum og samkvæmt Farsóttafréttum Embættis landlæknis frá apríl sl. virðist tíðni ákveðinna kynsjúkdóma hafa hækkað á undanförnum misserum. Aukning virðist vera á tíðni sjúkdóma s.s. sárasóttar og lekanda sem voru á miklu undanhaldi hér fyrir nokkrum árum. Aukningin er einkum meðal karla sem stunda kynlíf með körlum. Tíðni klamydíu virðist vera svipuð og hefur verið undanfarin ár en það er algengasti kynsjúkdómur á Íslandi með tæplega 2000 greind tilfelli á ári.

Einhverjir kunna að spyrja sig af hverju kynsjúkdómar séu þetta algengir á Íslandi? Gæti það verið vegna þess að fólk sýnir ekki nægjanlega ábyrgð í kynhegðun?

Sú staðreynd að sumir kynsjúkdómar eru einkennalausir eru m.a. ástæðan fyrir því að smit eru algeng. Fólk getur verið með smitandi sjúkdóm, án þess að vita af því og smitað aðra. Notkun kynsjúkdómavarna minnka líkurnar verulega á að smitast af kynsjúkdómi auk þess sem það minnkar einnig líkur á að smitast af kynsjúkdómi ef bólfélagar eru færri en fleiri. 

Vanda val á bólfélaga

Það er á ábyrgð hvers og eins að verja sig gegn kynsjúkdómum. Notkun smokka við kynmök minnkar töluvert líkur á að smitast af kynsjúkdómum svo framarlega sem smokkurinn er rétt notaður. Hver og einn getur með ábyrgri hegðun haft mikil áhrif á hvort hann smitast af kynsjúkdómi.

  • Mikilvægt er að nota smokka þegar kynmök eru höfð við „nýjan“ bólfélaga.
  • Vandaðu valið á bólfélaga. Það þarf ekki að byrja á því að hafa kynmök við fyrstu kynni.

Áfengisneysla slævir dómgreindina og eykur líkur á að gera hluti sem þú hefði ef til vill ekki gert allsgáður.

Hver og einn þarf líka að taka ábyrgð á því að smita ekki aðra. Það er einfalt að fara í kynsjúkdómatékk og fólk sem er að hefja nýtt samband ætti að gera slíkt til að reyna að koma í veg fyrir að smita aðra af kynsjúkdómi. Í kynsjúkdómatékki er hægt að greina bakteríusjúkdómana klamydíu og lekanda með stroki eða þvagsýni. Herpes og HPV smit greinist af einkennum og HIV, sárasótt og lifrarbólgu má finna með blóðrannsókn.  

Ef fólk grunar að það hafi smitast af kynsjúkdómi eða finnur fyrir einkennum frá kynfærum s.s. sviða við þvaglát, útferð úr typpi eða leggöngum, óútskýrðum milliblæðingum, blöðrum/sárum á kynfærum eða kviðverkjum er um að gera að hafa samband á næstu heilsugæslustöð og ræða við lækni eða hjúkrunarfræðing og fá leiðbeiningu um framhaldið. Greining er oftast ekki flókin og nægir að taka þvagsýni eða strok. Stundum þarf blóðrannsókn og nákvæmari skoðun. 

Varnir og ábyrgð kynhegðan

Ef greining staðfestir kynsjúkdóm er mikilvægt að smitrakning fari fram, þ.e. leit að öðrum einstaklingum sem hafa verið í nánum samskiptum við hinn smitaða. Það er gert samkvæmt sóttvarnarlögum og þarf hinn smitaði að gefa upp nöfn þeirra sem gætu hafa smitast og er kannað 6-12 mánuði aftur í tímann.

Meðferð flestra kynsjúkdóma er þeim að kostnaðarlausu sem hana þurfa. Algengustu sjúkdómana er auðvelt að lækna og afleiðingar sjaldnast alvarlegar. Ef sjúkdómurinn uppgötvast ekki eða meðferð dregst geta smitin orðið fleiri og afleiðingarnar alvarlegri. Til þess að draga úr smitum kynsjúkdóma og fækka alvarlegum afleiðingum þeirra er mikilvægt að sýna ábyrga kynhegðun og nota kynsjúkdómavarnir. Besta vörnin er því smokkur, hafa fáa bólfélaga og velja þá vel.

Frekari upplýsingar um kynsjúkdóma má finna á vefsíðunni heilsuvera.is.

Ása Sjöfn Lórensdóttir, fagstjóri heilsuverndar skólabarna, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
Ósk Ingvarsdóttir, yfirlæknir mæðraverndar, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.