Njótum helgarinnar af skynsemi

Mynd af frétt Njótum helgarinnar af skynsemi
30.07.2020

Mesta ferðahelgi ársins er framundan en það er ljóst að hún verður með öðru sniði en venjulega. Það gildir samkomubann þannig að aðeins 500 mega koma saman og flestum samkomum sem venjulega eru þessa helgi hefur verið aflýst. En þörf fólks fyrir tilbreytingu og skemmtun verður ekki aflýst svo auðveldlega.

Kanna nýjar slóðir

Margir eiga þriggja daga helgarfrí og vilja nýta það til að ferðast og lyfta sér upp. Við vitum að hér á landi hefur verið lítið um smit af völdum veirunnar sem veldur covid19 en vísbendingar eru um að því sé kannski ekki alveg að treysta lengur. Þeir sem stefna á útilegur og innanlandsferðalög um helgina þurfa því að hafa varann á.

Hafa þarf í huga að virða þær takmarkanir sem eru á tjaldsvæðum og stuðla ekki að því að fólk safnist saman umfram þá 500 sem leyft er. Landið okkar er stórt og um að gera að heimsækja staði um allt land og kannski að kanna nýjar slóðir. Allir landshlutar hafa upp á margt skemmtilegt að bjóða. Nú er tækifærið fyrir fjölskylduna að verja tíma saman um Verslunarmannahelgina hvort sem er heima eða að heiman og skapa góðar og gleðilegar minningar til að ylja sér við um ókomin ár.

Verum skynsöm um helgina. Umgöngumst náungann af virðingu og virðum persónuleg mörk hvers og eins. Höfum í huga smitgát og sprittbrúsinn er sjálfsagður búnaður allra ferðalanga. Ef við hittum einhvern sem við þekkjum er óþarfi að rjúka í fangið á viðkomandi eða gefa fimmur. Látum brosið og olnbogann eða loftfimmuna duga. Fletir sem margir koma við eru sérlega varasamir og þá ætti að hreinsa reglulega. Eftir að slíkir fletir eru snertir ætti að spritta hendur. Leið veirunnar inn í líkamann er um slímhúðir líkamans. Þetta eru slímhúðir í munni, nefi, augum og kynfærum. Þetta merkir að gamla góða reglan um að þvo hendur eftir salernisferðir er orðin þannig að þvo ætti hendur eða spritta fyrir og eftir salernisferðir á almenningssalernum því erfitt er að komast inn á þau og nota án þess að snerta fleti sem margir hafa snert á undan.Veður getur sett sett mark sitt á ferðalög og því nauðsynlegt að fylgjast vel með veðurspám. Vonandi fá í það minnsta einhverjir landshlutar sólargeisla um helgina og því gott að muna eftir sólvörninni.

Sólvörn og flugnafæla

Ef farið er á svæði þar sem búast má við skordýrum sem bíta er gott að hafa með sér flugnafælu eða flugnanet. Þeir sem viðkvæmir eru fyrir flugnabitum ættu ef til vill að hafa með sér ofnæmislyf og sterakrem sem fá má án lyfseðils í apótekum til að nota ef á þarf að halda.

Ef að líkum lætur verður mikil umferð á vegum landsins og öll viljum við koma heil heim. Förum því með góðan skammt af þolinmæði með okkur. Sýnum okkar bestu hliðar í umferðinni. Verum tillitssöm, keyrum á löglegum hraða og eftir aðstæðum. Hafi bílstjórar neytt áfengis er nauðsynlegt að gæta að því að nægilega langur tími líði frá því að áfengis var neytt þar til ekið er af stað.

Látum fjölskyldurnar blómstra um helgina og verum til fyrirmyndar.
Á heilsuvera.is má finna nánari upplýsingar um smitgát, sólvörn og skordýrabit.

Höfundur er Margrét Héðinsdóttir, hjúkrunarfræðingur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.