Álag og andleg liðan

Mynd af frétt Álag og andleg liðan
12.06.2020

Öll höfum við með einum eða öðrum hætti upplifað álagstíma undanfarnar vikur og mánuði. Kórónuveirufaraldur hefur herjað á okkur en við höfum verið svo lánsöm með samstilltu átaki okkar allra að hafa náð góðum tökum á þessum ófögnuði sem veiran svo sannarlega er. Þó með vissum fórnarkostnaði.

Þunglyndi þrátt fyrir hækkandi sól

Álagstímar eru nú að baki í bili hvað faraldurinn áhrærir en óvissutímar eru fram undan. Auknu álagi getur fylgt kvíði, vanlíðan og jafnvel depurð og þunglyndi þrátt fyrir hækkandi sól. Heimilislæknar mæta fólki á velli lífsins, svo að segja á öllum stigum. Margir eru eðlilega hikandi að ræða þá hluti sem hvað þyngst vega og tíma getur tekið að ávinna sér trúnaðartraust þess sem maður ræðir við hverju sinni. Einna erfiðast getur verið að ræða andlega vanlíðan og þá tilfinningu að ráða ekki við hversdaginn. Við eigum ekki að standa uppi ein í slíkum aðstæðum, maðurinn er ekki eyland. Mikil þekking hefur áunnist á eðli og meðferð þunglyndis og svokallaðra kvíðaraskana og hvernig hægt er að berjast til sigurs. Upplifa aukna vellíðan á ný og betra líf.

Við greiningu á þeirri vanlíðan sem þunglyndi og kvíði veldur þarf að skoða hvernig og hversu lengi þessi vanlíðan hefur staðið yfir. Það er eðlilegt að finna á tímabilum fyrir kvíða, jafnvel hræðslu og depurðareinkennum. En ef þessi einkenni verða viðvarandi og ráðandi í lífinu og eru jafnvel farin að stjórna því hvernig við bregðumst við og hegðum okkur, jafnvel þvert gegn betri vitund okkar, er tími til kominn að setjast niður, ræða málin og leita sér aðstoðar. Ef til dæmis kvíði hefur verið viðvarandi lengur en í sex mánuði, þessi tilfinning að vera stöðugt eins og „hengdur upp á þráð“, er ástæða til að staldra við. Einkenni kvíðans geta verið eirðarleysi, að finna fljótt fyrir þreytu, einbeitingarskortur, aukin vöðvaspenna, spenna í líkamanum og svo svefntruflanir – erfitt að festa svefn, laus svefn og lélegur svefn.

Missa gleðitilfinninguna

Einkenni þunglyndis geta verið misalvarleg, allt frá vægari einkennum upp í svæsnari. Við greiningu á erfiðari vanda skiptir tíminn sem vanlíðanin hefur staðið yfir einnig máli.Sú vanlíðan sem hvað mest einkennir þunglyndið er depurð, vonleysi og þessi tilfinning að hafa misst gleðitilfinninguna úr lífinu. Þunglyndi er viðvarandi vanlíðan sem getur hvolfst yfir eins og skuggi úr skúmaskoti jafnvel án þess að sá sem fyrir því verður taki vel eftir því. Aðstandendur, fjölskylda og vinir eru þeir sem hvað mest taka eftir þeirri breytingu sem verður þá á maka, mömmu, pabba, góðum vini eða vinnufélaga.

Markmið góðrar heilsugæslu er að vera sá viðkomustaður sem fólk getur leitað til í vanda, bæði andlegum og líkamlegum, en mjög oft fer þetta saman. Þar er fagfólk til staðar sem getur hjálpað þegar vandi steðjar að. Ég vil nota tækifærið og benda á heilsuvera.is til að finna gagnlegar upplýsingar um hvernig bæta má líðan og hvert má leita.

Maður er manns gaman

Kórónuveirufaraldur var nefndur hér í byrjun, vonandi mun við sem þjóð bera gæfu til að takast samhent á við þann vágest áfram. Í Hávamálum segir að maður sé manns gaman. Njótum samvista hvert annars, hlúum hvert að öðru bæði í starfi og leik. Þannig mun okkur farnast vel.

 

Höfundur er Guðmundur Karl Sigurðsson, heimilislæknir og fagstjóri lækninga, Heilsugæslunni Árbæ

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.