Nýjar áskoranir á hverjum degi

Mynd af frétt Nýjar áskoranir á hverjum degi
12.05.2020

Í dag eru 200 ár frá fæðingu Florence Nightingale. Til hamingju með daginn, kæru hjúkrunarfræðingar og ljósmæður heilsugæslunnar.

Í dag, 12. maí, eru 200 ár liðin frá fæðingu Florence Nightingale. Af þessu tilefni tilnefndi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin árið 2020 ár hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra.

Hjúkrun innan heilsugæslunnar hér á höfuðborgarsvæðinu á sér langa sögu og má rekja hana aftur til 1915 þegar Hjúkrunarfélagið Líkn var stofnað að frumkvæði Christophine Bjarnhéðinsson sem var fyrsta fulllærða hjúkrunarkonan sem starfaði á Íslandi. Líkn var mjög framsýnt félag og fólst starfsemi þess í heimahjúkrun, aðstoð við fátæka, berklavernd, mæðra- og ungbarnavernd. Hjúkrunarkonur Líknar reyndu að aðstoða fátækar fjölskyldur eftir föngum hvað húsnæði snerti og koma börnum í sveit eða á barnaheimili til sumardvalar.

Árið 1927 hóf Líkn skipulagða ungbarnavernd í Templarasundi 3. Þangað gátu mæður komið með börn sín og fengið læknisskoðun og leiðbeiningar um meðferð ungbarna endurgjaldslaust. Fyrsta hjúkrunarkonan var Bjarney Samúelsdóttir og fyrsti yfirlæknirinn var Katrín Thoroddsen barnalæknir. Heimavitjanir voru frá fæðingu og hálfsmánaðarlega til sex mánaða aldurs. Fátækt var mikil á þessum árum og deildi ungbarnaverndin út mjólk, lýsi, matvörum, fatnaði, útvegaði barnarúm, sængurfatnað og fleiri nauðsynjar til fátækra fjölskyldna. Boðið var upp á ljósböð fyrir börn með langvarandi kvef, beinkröm og þau sem þrifust illa. Reykjavík var skipt í 3 hverfi og fékk hver hjúkrunarkona vigt og leðurtösku til að hafa með sér í heimavitjanir. 

Skólaheilsugæslan á sér einnig langa sögu. Árið 1910 var fyrsti skólalæknirinn, Guðmundur Hannesson, ráðinn við Barnaskólann í Reykjavík til að fylgjast með heilsufari barna. Árið 1920 var síðan fyrsta skólahjúkrunarkonan ráðin, Guðný Jónsdóttir, ásamt fyrsta skólatannlækninum og fyrsta skólaaugnlækninum. Helstu vandamál skólabarna á þessum tímum voru næringarskortur, berklar og almenn fátækt vegna kreppu. Heilsuverndin fólst fyrst og fremst í matargjöfum og hreinlætisuppeldi. Börnin fengu lýsi í skólanum og þau sem á þurftu að halda að mati læknis fengu ljósböð. 

Á þessum rúmum 100 árum hafa aðstæður og tíðarandi breyst. Hjúkrun hefur þróast af miklum metnaði en tilvistin sem fagið byggir á er ávallt sú sama. Tilvistin að standa nærri náunganum, efla heilsu hans og fyrirbyggja sjúkdóma. Þessi tilvist er sérstaklega sterk í heilsugæsluhjúkrun. Að vera hluti af nærsamfélaginu, fylgja þar fólki frá vöggu til grafar, taka þátt í sorgum þess, gleði og sögu. Vera talsmaður heilsu í samfélaginu og hafa áhrif á samfélagið, í því felst heilsugæsluhjúkrun. 

Hjúkrun innan heilsugæslunnar mun halda áfram að takast á við nýjar áskoranir á hverjum degi. Við horfum til framtíðar með virði hjúkrunar að leiðarljósi. Sýn og vilji munu finna veg og vegferð fyrir það sem við teljum vera mikils virði.

Höfundur er Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar HH

Sögulegar heimildir: Bergljót Líndal, 2016. Heilsuverndarstöð Reykjavíkur 1953-2006