Góð ráð til að draga úr einmanaleika

Mynd af frétt Góð ráð til að draga úr einmanaleika
07.05.2020

Lífið á 21. öldinni er ólíkt öllu því sem við höfum kynnst áður í mannkynssögunni. Fólk lifir lengur en nokkru sinni fyrr og með tilkomu netsins höfum við breytt því hvernig við vinnum, verslum, leitum að upplýsingum, leikum okkur, lærum og hvernig við tengjumst öðru fólki. En á sama tíma og möguleikar okkar til að tengjast öðru fólki á rafrænan máta aukast, þá virðist einmanaleiki fara vaxandi í vestrænum samfélögum.

Skaðleg áhrif 

Einmanaleiki er sú tilfinning sem við finnum fyrir þegar við upplifum skort á félagslegum tengslum. Sá sem er einn er því ekki endilega einmana og sá sem er innan um aðra getur verið einmana. 
Eftir því sem fjöldi þeirra sem upplifa einmanaleika hefur aukist hafa einnig komið betur í ljós þau fjölmörgu skaðlegu áhrif sem þessi tilfinning getur haft á líkamlega og andlega heilsu. Það er því sérstaklega mikilvægt nú, þegar COVID-19-faraldurinn dregur úr möguleikum okkar á samveru og veldur að sama skapi alvarlegum veikindum hjá mörgum sem sýkjast, að huga að þáttum sem geta dregið úr einmanaleika.

Góð ráð til að draga úr einmanaleika:

  • Hlúa að þeim tengslum sem fyrir eru. Tilvalið er að gera eitthvað saman og skapa með því góðar minningar. Það eflir líka tengslin að hjálpast að við þau verkefni sem fyrir liggja. Á tímum samkomubanns hafa margir nýtt sér rafræna möguleika, s.s. myndsímtöl, til að halda persónulegum tengslum við fjölskyldu og vini. Þetta er hægt að nýta áfram, t.d. fyrir þá sem eiga marga vini og/eða skyldmenni sem búa erlendis, eða þá sem ekki eiga heimangengt af öðrum orsökum.
  • Mynda ný tengsl í gegnum áhugamál, sjálfboðastarf, eða félagsstarf. Sem dæmi um aðstæður sem bjóða upp á tengslamyndun má nefna matreiðslunámskeið, sjálfboðastörf hjá Rauða krossinum, eða að byrja í kór.
  • Leita aðstoðar vegna andlegra erfiðleika, s.s. kvíða, þunglyndis eða lágs sjálfsmats, t.d. með því að leita til viðurkennds meðferðaraðila eða nýta sér til þess gerð námskeið. Lágt sjálfsmat og aðrir andlegir kvillar gera fólki erfiðara fyrir með að mynda og viðhalda góðum tengslum, og því til mikils að vinna.

Engin skömm

Það er engin skömm að því að vera einmana og upplifa vanlíðan, en mikilvægt er að leita sér aðstoðar áður en vandinn eykst og verður erfiðari viðureignar. Heilsugæslustöðin þín er tilvalið fyrsta stopp, en flestar heilsugæslustöðvar bjóða nú upp á sálfræðiþjónustu fyrir alla aldurshópa, auk þess sem hjúkrunarfræðingar á heilsugæslu geta veitt ráðgjöf og stuðningsviðtöl. Einnig eru starfandi þrjú þverfagleg geðheilsuteymi á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og uppbygging slíkra teyma stendur nú yfir um land allt. 

Þjónusta geðheilsuteyma er ætluð þeim sem þurfa sérhæfðari aðstoð og þéttari stuðning til lengri tíma. Auk þess má leita aðstoðar í Hjálparsíma Rauða krossins, eða á netspjalli Hjálparsímans 1717.is, og að lokum má nefna vefinn Heilsuvera.is, þar sem er að finna ýmis góð ráð. Höfundar eru starfsmenn í Geðheilsuteymi HH suður. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.