Varast að valda börnum kvíða

Mynd af frétt Varast að valda börnum kvíða
19.03.2020

Þessa dagana lifum við óvenjulega tíma þegar umfjöllun sem tengist COVID-19 veirunni er mjög fyrirferðarmikil, jafnt í frétta- og samskiptamiðlum og almennri umræðu. Þótt heilbrigðisyfirvöld standi sig mjög vel í öllum aðgerðum og upplýsingagjöf verða margir áhyggjufullir við þessar aðstæður. En hvað með ung börn? Hvernig skilja þau og túlka svona fréttir? Hvaða áhrif hefur umfjöllunin og núverandi ástand á þau?

Fylgjast með hvaða fréttir börnin heyra

Í sumum tilfellum hefur veirufaraldurinn þegar haft bein áhrif á hagi barna, t.d. þar sem þau sjálf eða foreldrar eru í sóttkví eða hafa þurft að gera aðrar breytingar á högum sínum eða áætlunum. Viðbrögð annarra geta líka haft áhrif, t.d. ef foreldrar eru mjög áhyggjufullir og kvíðnir vegna veirunnar gæti það leitt til þess að þeir hafi minni orku, þolinmæði eða aðrar forsendur til að sinna börnunum og viðhalda daglegri rútínu og jákvæðri samveru sem er börnum svo mikilvæg. Þá er mikilvægt fyrir alla fullorðna að fylgjast með hvaða fréttum og umræðu börn verða áheyrendur að. Ekki að foreldrar ættu að reyna koma í veg fyrir að börn heyri umfjöllun um veirufaraldurinn, heldur þurfa þeir að vera meðvitaðir um hugsanleg áhrif á þau.
Börn hafa hvorki forsendur til að sortera eða skilja fréttir á sama hátt og fullorðnir né að átta sig á mögulegum afleiðingum. Þau geta auðveldlega misskilið það sem þau heyra, túlkað það á versta veg og orðið óttaslegin og kvíðin. Alls ekki er víst að börn ræði þessi mál að eigin frumkvæði eða segi frá vangaveltum sínum og áhyggjum. Því er mikilvægt að foreldrar gefi sér tíma til að tala við börn um það sem er í fréttum tengt COVID-19 og sérstaklega að hlusta vel ef börnin vekja sjálf máls á einhverju sem þau hafa heyrt.

Nauðsynlegt er að reyna að átta sig á hverju börnin eru að velta fyrir sér, hvernig þau skilja hlutina, hvað þau halda að þetta þýði fyrir þau sjálf, hvort þau eru kvíðin og hvað þau óttast. Gott er að spyrja opinna spurninga, svo sem, „hvað heldurðu að sé í gangi?“, „hvað heldurðu að geti gerst?“, „hvað heldur þú að sé hægt að gera?“, o.s.frv. Þegar maður hefur þannig fengið innsýn í hugmyndir barnsins um sjúkdóminn er miklu auðveldara að gefa því svör og útskýringar, í samræmi við aldur þess og þroska.

Til að átta sig á hugsunum og skoðunum barns gefst líka vel að vera einfaldlega með því í rólegheitum. Hafa sjálfur ekki frumkvæði að umræðuefni heldur bíða og sjá hvort barnið fitjar upp á einhverju sem það hefur þörf fyrir að ræða. Oft koma börn með óljósar athugasemdir eða spurningar, en þá er um að gera að byrja á að nota opnu spurningarnar til að finna út hvað málið raunverulega snýst um, áður en farið er í útskýringar eða ráðleggingar.

Séu ekki sálusorgarar foreldra

Að lokum má nefna að foreldrar þurfa líka að gæta þess að ung börn þurfi ekki að hlusta á umræður þeirra á milli um eigin áhyggjur. Auðvitað á að veita börnum ákveðnar upplýsingar, en það þarf að varast að valda börnum óþarfa kvíða. Börnum er tamt að taka áhyggjur foreldra inn á sig og börn eiga ekki að lenda í því hlutverki að verða sálusorgarar foreldra sinna. Ef foreldrar eru sjálfir kvíðnir og óvissir um möguleg áhrif COVID-19 veirunnar er um að gera að nýta sér þær upplýsingar og stuðning sem víða er í boði, t.d. á covid.is, á Heilsuveru og á fleiri góðum slóðum á netinu.

Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur og forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu