Símaþjónusta í stað pantaðra tíma

Mynd af frétt Símaþjónusta í stað pantaðra tíma
10.03.2020

Í ljósi neyðarstigs almannavarna vegna COVID-19 mun Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins efla fjarþjónustu á öllum heilsugæslustöðvunum. 

Símaþjónusta verður aukin til muna og símatímum lækna verður fjölgað.

Hjúkrunarfræðingar munu eftir sem áður veita símaráðgjöf.

Haft verður samband við alla þá sem eiga pantaðan tíma og reynt að leysa erindið símleiðis. Við verðum að sjálfsögðu á staðnum og sinnum þeim sem þurfa að koma á heilsugæslustöðina. 

Ungbarnavernd, mæðravernd og  heilsuvernd skólabarna verður áfram en tímar ef til vill færðir, við höfum samband ef þess þarf.    

Þjónusta í gegnum vefinn heilsuvera.is er einnig aukin, bæði í formi skilaboða á mínum síðum og þá verður netspjall opið alla daga frá 8.00 – 22.00.

Aðeins þeim sem hafa dvalið á skilgreindum hættusvæðum samanber leiðbeiningar sóttvarnalæknis eða verið í samneyti við smitaða er boðin sýnataka eins og staðan er í dag. Sýni eru tekin á dagvinnutíma á heilsugæslustöðvum og hringja þarf á undan sér á viðkomandi stöð.