Mætum Covid-19 með skynsemi að leiðarljósi

Mynd af frétt Mætum Covid-19 með skynsemi að leiðarljósi
05.03.2020

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að ræða um Covid-19 en látum okkur hafa það. Þessi veirusjúkdómur sem SARS-CoV-2 veiran veldur, hefur valdið miklum usla mjög víða. Heimsfaraldur sjúkdóms sem engin lækning er til við og enginn hefur ónæmi fyrir, er alvarlegur. Ekki af því að í þessu tilviki sé sjúkdómurinn svo alvarlegur heldur vegna þess að svo margir geta veikst á sama tíma að það lami þjóðfélagið og geri okkur ókleift að sinna þeim 5% sem verða alvarlega veik. Þetta er ástæðan fyrir því að reynt er eftir fremsta megni að hefta útbreiðsluna og tefja hana. 

80% tilvika eru ekki alvarleg

Á þessum tíma er í raun sama hvort fólk er smitað af Sars-CoV-2 eða öðrum kvefveirum, fólk á að halda sig heima þar til það hefur náð heilsu og gera það sem hægt er til að forðast að smita aðra. 

Í 80% tilvika eru veikindi ekki alvarleg en um 20% þeirra sem veikjast fá alvarlegri einkenni oftast á 4. til 8. degi veikinda. Þá getur fólk fengið lungnabólgu með öndunarerfiðleikum sem þurft getur að meðhöndla á sjúkrahúsi. Af því að margir veikjast vægt og miklar líkur eru á að margir þeirra leiti ekki til heilbrigðiskerfisins í sínu landi er öll talnaleikfimi erfið í þessu tilviki því menn vita hreinlega ekki hversu margir hafa smitast á heimsvísu. Menn vita aðeins hvað margir hafa verið greindir. Vitað er að meiri líkur eru á að fólk eldra en 60 ára og þeir sem veikir eru fyrir, sér í lagi fólk með hjartasjúkdóma og sykursýki, veikist alvarlega. Börn virðast veikjast vægt af SARS-CoV-2 veirunni.

Einkenni og greining

Helstu einkenni Covid-19 sjúkdómsins eru í byrjun eins og í venjulegri kvefpest, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta og slappleiki. Til þess að ganga úr skugga um hvort um SARS-CoV-2 veiruna er að ræða þarf að taka strok úr nefi eða hálsi þess sem hefur einkenni.

Svo spara megi tíma, sóttvarnabúnað og draga úr smithættu eru þessi sýni tekin í bíl viðkomandi fyrir utan heilsugæslustöðvar eða í vitjunum heima hjá þeim sem ekki komast á heilsugæslustöð. Fólk kemur þá á umsömdum tíma og heilbrigðisstarfsmaður kemur út og tekur strokið í gegnum bílglugga. 

Ekki er hægt að greina smit í einkennalausum einstaklingi. Farið er eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis um hverjir þeirra sem eru með ofangreind einkenni eru prófaðir en þar eru um að ræða fólk sem hefur verið á skilgreindum áhættusvæðum eða í tengslum við smitaða einstaklinga. Greining og meðhöndlun er fólki að kostnaðarlausu þar sem um skráningarskyldan sjúkdóm er að ræða. 

Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit. Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðarhúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum svo sem peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti. 

Rétt er að forðast náið samneyti við fólk sem er með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta.

Allir kynni sér leiðbeiningar

Allir ættu að kynna sér efni um Covid-19 á vef Embættis landlæknis, landlaeknir.is. Þar eru góðar leiðbeiningar til almennings. Einnig má lesa nánar um veiruna og sjúkdóminn sem hún veldur á heilsuvera.is. Á netspjalli á heilsuvera.is er einnig svarað fyrirspurnum. Netspjallið er opið frá 8 til 22 alla daga.

Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur og Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.