Svörin um lyfjagjöf við ADHD

Mynd af frétt Svörin um lyfjagjöf við ADHD
27.02.2020
ADHD er taugaþroskaröskun sem einkennist af athyglisbresti með eða án ofvirkni og hvatvísi. Um 5-10% barna og unglinga greinast með ADHD. Einkenni ADHD geta haft hamlandi og víðtæk áhrif á líf barna og unglinga í skóla, heima og í félagslegum samskiptum og getur leitt til skertra lífsgæða. Ef börn fá ekki viðeigandi meðferð geta komið fram ákveðnar fylgiraskanir s.s. skert námsframvinda, félagslegir erfiðleikar, kvíði, þunglyndi og slök sjálfsmynd. Meðferð við ADHD felst í samræmdum meðferðarúrræðum s.s. fræðslu- og færninámskeiðum fyrir foreldra, þjálfunarnámskeiðum fyrir börn, aðlögun og stuðningi í skóla og meðferð sálfræðinga auk þess sem lyfjameðferð kemur til álita ef önnur úrræði skila ekki tiltækum árangri. Örvandi lyf við ADHD eru árangursrík í u.þ.b. 80% tilfella hjá þessum aldursflokki. 


Lyfin eru örugg

Ýmsar spurningar brenna á foreldrum varðandi lyfjagjöf við ADHD. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið eru á börnum á grunnskólaaldri og hafa sýnt fram á að þegar lyfin eru notuð eftir leiðbeiningum læknis eru þau örugg. Algengustu aukaverkanir eru minni matarlyst og erfiðleikar með að sofna á kvöldin. Metið er í hverju tilfelli fyrir sig hvort aukaverkanirnar skerði lífsgæði og ef svo er, er lyfjatöku hætt og þá oft annað lyf prófað. Ein algengasta spurning foreldra er hvort börn sem fara á lyf séu í aukinni hættu á áhættuhegðun s.s. áfengis- og fíkniefnavanda eða afbrotahegðun. Þekkt er að einstaklingar með ADHD eru í aukinni hættu á slíkri hegðun ef þau fá ekki viðeigandi meðferð. Langtímarannsóknir hafa sýnt að lyfjameðferð auka ekki líkurnar á því og sumar rannsóknir hafa jafnvel sýnt fram á lyfjagjöf hafi verndandi áhrif. Önnur algeng spurning er hvort lyfin séu ávanabindandi eða valdi vímu. Ef lyfin eru einungis notuð í meðferðarskömmtum þá er það ekki raunin. Aðrar áhyggjur foreldra eru að lyfin valdi persónuleikabreytingum og deyfi börnin. Tilgangur lyfjanna er að bæta virkni heilans sem leiðir til aukinnar getu til að fylgjast með, hafa stjórn á sinni hegðun og draga úr ofvirkni. Ef börnin verða flöt eða áhugalaus er það óæskileg og óásættanleg aukaverkun lyfjanna og er þá full ástæða til að hætta inntöku þess eða skipta um lyf. 

Eftir þörfum barnsins

Það er einstaklingsbundið hvort taka þurfi lyfin alla daga og fer það eftir þörfum barnsins. Yfirleitt fá börn ekki fráhvörf ef tekin eru lyfjahlé og því er hægt að stjórna lyfjagjöf eftir þörfum barnsins. Börn og foreldrar spyrja gjarnan hvort þörf sé á ævilangri meðferð. Svarið er að einkenni ADHD breytast gjarnan með tímanum hjá einstaklingum. Yfirleitt minnka ofvirkni- og hvatvísiseinkennin en áfram eru erfiðleikar með athygli og skipulag. Margir geta tileinkað sér færni og tækni til að skipuleggja líf sitt þannig að ekki er þörf á lyfjameðferð á fullorðinsárum. Mikilvægt er að hafa í huga að börn og unglingar sýna misalvarleg eða hamlandi einkenni og því er nauðsynlegt að sníða meðferð hvers einstaklings fyrir sig. Gott utanumhald og eftirfylgd skiptir höfuðmáli.


Nína Sigurveig Björnsdóttir læknir á Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslustöð höfuðborgarsvæðisins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.