Heilsan á nýju ári

Mynd af frétt Heilsan á nýju ári
13.01.2020

Í upphafi nýs árs strengja margir sér nýársheit, hjá mörgum tengjast slík heit bættri heilsu. Öll heilsubót er af hinu góða en hafa ber í huga að vænlegast til árangurs er að markmiðin sem sett eru séu bæði raunhæf og mælanleg. Áskoranir tengdar lífsstílsbreytingum geta verið margvíslegar og á þeirri vegferð ber að varast að ætla sér ekki um of.
Líkamlegir, andlegir og félagslegir þættir heilsunnar hafa áhrif hver á annan og því skiptir máli að skoða heilsuna í því samhengi.

Geðheilsa þín er mikilvæg á öllum stigum lífsins, frá vöggu til grafar. Áhrifanna gætir í hugsun, líðan og hegðun í daglegu amstri. Jafnframt hvernig tekist er á við streitu og áskoranir og einnig í samböndum þínum við aðra. Mikilvægt er að þróa með sér færni til þess að hlúa að geðheilsunni því ávinningurinn er ótvíræður. Það eru margar leiðir færar til þess að efla andlega líðan en hér eru nokkrar þeirra:

Svefn

Svefn hefur mikil áhrif á geðheilsu en á það til að lenda aftarlega þegar kemur að forgangsröðun hjá mörgum. Rannsóknir hafa sýnt að svefnleysi hefur áhrif á skapsveiflur og viðkvæmni fyrir streitu eykst svo eitthvað sé nefnt. Streita er algeng orsök tímabundins svefnleysis. Mikilvægt er að skoða hvaða þættir eru að hafa áhrif á svefninn. Gott er að einsetja sér góðar svefnvenjur og gera þær að rútínu.

Hreyfing

Hreyfing eykur endorfín í líkamanum sem eykur orku og hefur jákvæð áhrif á skapsmuni. Hreyfing dregur einnig úr streitu og bætir svefn. Reglubundin hreyfing hefur því fjölþættan ávinning fyrir heilsuna.

Núvitund

Núvitund felst í því að beina athygli að líðandi stund með opnum huga og án þess að dæma. Hljómar einfalt en það krefst æfingar. Hægt er að gera einfaldar en skemmtilegar æfingar í hversdagslífinu sem tekur einungis nokkrar mínútur. Með reglubundnum æfingum og tíma eykur það lífsgæði til muna.
Það dregur úr kvíða og streitu, auk þess hefur það jákvæð áhrif á skap og sjálfsmynd. Leiðin til þess að þroska tilfinningagreind hefst með núvitund.

Auka tilfinningavitund

Öll höfum við tilfinningar enda eru þær órjúfanlegur partur af okkar tilveru. Við stjórnum þeim ekki, tilfinningar koma og fara. Því skiptir máli að taka eftir þeim, setja orð á þær og læra að umbera. Með því að
þekkja og taka eftir þeim erum við líklegri til þess að beina þeim í réttan farveg. Sú hæfni að þekkja og nefna eigin tilfinningar og annarra er ekki meðfæddur eiginleiki heldur lærð færni sem allir geta tileinkað sér. Tilfinningar eiga sér sterka samsvörun í líkamanum. Því er fyrsta skrefið í því að þroska betri tilfinningavitund sú að beina athyglinni að líkamanum og taka eftir án þess að dæma sig. Ávinningur þess að þjálfa betri tilfinningavitund er mikill fyrir geðheilsu. Auk þess sem það bætir samskipti og eykur færni í félagslegum samskiptum.

Ánægjulegar athafnir

Margar rannsóknir á undanförnum árum hafa fjallað um neikvæð áhrif af of mikilli skjánotkun á
geðheilsu en mikilvægt er að stilla notkun í hóf. Sérstaklega ber að huga að skjátíma barna í því samhengi. Við erum félagsverur og höfum þörf fyrir að eiga í beinum samskiptum hvert við annað. Að gera meira af því sem gleður, eins og ánægjulegar stundir með fjölskyldu og vinum eða eiga skemmtilegt áhugamál, getur stuðlað að jákvæðum upplifunum og aukið vellíðan.

Samkennd með sjálfum sér og öðrum

Sjálfsgagnrýni og neikvætt sjálfstal ráða miklu um sjálfsmynd og líðan. Vertu þinn besti vinur og sýndu sjálfum þér og öðrum samkennd og velvild. Frekari upplýsingar og ráð um bætta geðheilsu er að finna á heilsuvera.is.

Íris Dögg Harðardóttir, teymisstjóri Geðheilsuteymis HH suður

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu