Bólusetningar fullorðinna

Mynd af frétt Bólusetningar fullorðinna
25.10.2019

Flest höfum við fengið okkar barnabólusetningar í ungbarnaeftirliti heilsugæslunnar.  Á fullorðinsárum er það oft fyrst þegar við förum að leita út fyrir landsteinana á vit hinna ýmsu ævintýra að við förum að velta fyrir okkur hvaða bólusetningar við höfum þegar fengið. Fyrir slíkar ferðir þarf gjarnan að bæta við eða endurnýja bólusetningar í ljósi landlægra sjúkdóma í öðrum löndum. Þegar líður á ævina og einstaklingar ná 60 ára aldri þarf að nýju að huga að bólusetningum.

Besta forvörnin

Haustinu fylgja oft öndunarfærasýkingar og önnur veikindi og á vetrarmánuðum má búast við inflúensu sem kemur sem faraldur hvern vetur hér á landi líkt og annars staðar. Börn og eldra fólk auk fólks með undirliggjandi sjúkdóma er í mestri hættu á alvarlegri fylgikvillum inflúensu og því er mælst til að þessir hópar njóti forgangs í bólusetningum. Besta forvörnin gegn alvarlegum fylgikvillum inflúensunnar og dauðsföllum er bólusetning.

Geta valdið slæmum sýkingum

En þó að flensan sé algeng og landlæg ár hvert þá eru einnig aðrar bólusetningar sem huga þarf að hjá fullorðnu fólki og ber þar að nefna lungnabólgubólusetninguna svokölluðu sem veitir vörn gegn bakteríum sem kallast pneumókokkar.

Bakterían getur valdið alvarlegri sýkingu í lungum, miðeyra og kinnholum. Ef illa fer getur bakterían einnig valdið sýkingu í blóði og jafnvel heilahimnubólgu. Oft er það svo að fólk veikist fyrst með venjulegri kvefpest en pneumókokkar koma svo í kjölfarið með alvarlegri veikindum. Bakterían smitast með úðasmiti á milli manna, til dæmis ef smitaður einstaklingur eða beri hóstar nálægt öðrum og heldur ekki fyrir munn og nef.

Þessa bakteríu er í raun að finna í nefi og koki hjá hraustu fólki á öllum aldri en á viðkvæmum aldri eða þegar herjar á ónæmiskerfið af öðrum orsökum geta þær valdið slæmum sýkingum. Sjúkdómar af völdum pneumókokka geta orðið alvarlegir og jafnvel lífshættulegir hjá þeim sem eru viðkvæmir fyrir. Eru það helst ung börn og einstaklingar komnir yfir sextugt en einnig einstaklingar með undirliggjandi ónæmisvanda eða langvinna sjúkdóma (sjá betur að neðan). Að jafnaði greinast um 50 einstaklingar með alvarlega sýkingu af völdum pneumókokka á Íslandi ár hvert og eru flestir þeirra sem greinast 60 ára og eldri.

Vörn gegn bakteríum

Auk almenns hreinlætis er sterkasta forvörnin gegn pneumókokkasýkingum bólusetningin gegn þeim og er mælt með að þeir einstaklingar sem hafa aukna áhættu fái hana. Um ræðir eftirfarandi hópa fullorðinna einstaklinga samkvæmt upplýsingum frá landlækni:

  • Allir fullorðnir 60 ára og eldri.
  • Fullorðnir (19 ára og eldri) með aukna áhættu á alvarlegum pneumókokkasýkingum. Hér á við einstaklingar með undirliggjandi ónæmisvandamál, meðfædda hjartagalla með bláma, hjartabilun, króníska lungnasjúkdóma, mænuvökvaleka eða ígræðslu á heyrnarbeini eða kuðungi.

Til eru ýmsir stofnar af bakteríunni og veitir bólusetningin vörn gegn þeim hættulegustu. Til eru tvær tegundir bóluefnis, annars vegar bóluefni ætlað fullorðnum og hins vegar bóluefni sem sérstaklega er hannað fyrir börn yngri en 5 ára. Síðarnefnda hefur verið hluti af ráðlögðum bólusetningum barna frá árinu 2011. Ef einstaklingur hefur fengið lungnabólgubólusetningu eftir sextugt þarf ekki að endurtaka hana. Hægt er að fá lungnabólgubólusetningu á þinni heilsugæslu.

Á vefnum heilsuvera.is má lesa meira um bólusetningar fullorðinna.

Þórunn Jónsdóttir, sérnámslæknir í heimilislækningum, Heilsugæslunni Glæsibæ

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu