Gæludýrið sem enginn vill

Mynd af frétt Gæludýrið sem enginn vill
30.08.2019

Er lúsin velkomin á þínu heimili? Nei, hélt ekki og hún er heldur ekki velkomin í skólann. En hún er klók og getur gert sig heimakomna í hvaða kolli sem er svo það er gott að vera á varðbergi. Á www.heilsuvera.is eru góðar leiðbeiningar fyrir þá sem vilja vera lausir við lúsina.

Eitthvað á þessa leið hljómar dreifipóstur sem foreldrar grunnskólabarna fá frá heilsuvernd skólabarna á haustin. Höfuðlús er lítið skordýr sem lifir sníkjulífi í hárinu á höfðinu. Hún er skaðlaus manninum, en flestir eru þó sammála um að lúsin sé óvelkomin í hárið.

Hvað er til ráða? 

Höfuðlúsin veldur litlum einkennum en getur, ásamt eggjum sínum (nitum), sést í hári. Aðeins einn af hverjum þremur fær kláða. Lúsin smitast með því að skríða frá hári til hárs. Hún getur hvorki stokkið, flogið né synt. Höfuðlús sem dettur úr hári verður veikburða og getur ekki af sjálfsdáðum skriðið á annað höfuð og sest þar að. Smit með fatnaði og innanstokksmunum er talið mjög ólíklegt en þó er ekki hægt að útiloka að greiður, burstar, húfur og þess háttar, sem notað er af fleiri en einum á stuttum tíma, geti borið lúsasmit á milli. En lúsin elskar knús og hópsjálfur. Þá skapast oft tækifæri til búferlaflutninga. Allir geta smitast, óháð aldri, stétt og stöðu.Fylgist vel með hárinu. Nauðsynlegt er að kemba til að greina lúsasmit. Ráðlagt er að kemba börnum á aldrinum 3-13 ára vikulega til að koma í veg fyrir að lúsin nái fótfestu. Finnist lús við kembingu þarf að meðhöndla smitið. 

Góður lúsakambur er nauðsyn. Bilið á milli teinanna má ekki vera meira en 0,2 millimetrar og teinarnir þurfa að vera stífir. Ýmsar gerðir af lúsakömbum má finna t.d. í lyfjaverslunum. Hárgreiða, þó fínleg sé, gerir ekkert gagn í lúsakembingu. 

Lýs í þurru hári eru fráar á fæti og eiga auðvelt með að komast undan kambinum. Kembið því hárið blautt, baðað í hárnæringu. Á www.heilsuvera.is má finna leiðbeiningar um kembingu
Nota má kembingu sem meðferð við lús. Ef kembt er daglega í 14 daga hverfur lúsin úr hárinu. Efni til að drepa höfuðlús fást í lyfjaverslunum. Farið eftir leiðbeiningum framleiðanda. Notið lúsadrepandi efni aðeins ef lús hefur fundist í hárinu. 

Lúsin sé ekki leyndarmál 

Eina forvörnin sem sannanlega virkar er regluleg kembing. Ágætt er að hafa sítt hár bundið og sumir hafa brugðið á það ráð að nota buff sem gerir lúsinni erfiðara fyrir að komast frá einum kolli yfir á annan. En hvorugt kemur í stað þess að fylgjast vel með hári barnsins og kemba. 

Finnist lús í höfði barns er rétt að láta vita í skóla eða leikskóla barnsins svo hægt sé að tilkynna foreldrum annarra barna um lúsina og hefta útbreiðslu. Einnig er gott að láta nána ættingja eins og ömmu og afa vita, því lúsin elskar ömmu- og afaknús því hún finnur gjarnan ný heimkynni við slíkar aðstæður. Látum lúsina ekki vera best geymda leyndarmálið, þannig nær hún fótfestu. Með samtakamætti kembandi foreldra höldum við lúsinni í skefjum.

Ása Sjöfn Lórensdóttir, hjúkrunarfræðingur og fagstjóri heilsuverndar skólabarna, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu