Kvíði og hræðsla verði viðráðanleg

Mynd af frétt Kvíði og hræðsla verði viðráðanleg
22.08.2019

Að kvíða fyrir; er það í lagi eða slæmt fyrir börn? Haustið er tími breytinga hjá mörgum börnum. Eftir sumarfrí byrjar skólinn, kannski í fyrsta skipti, kannski á nýjum stað eða bara sami skólinn aftur – en skólabyrjun er mörgum börnum kvíðvænleg.

Smávegis óöryggi eða kvíði eru algeng viðbrögð þegar börn standa frammi fyrir breytingum eða nýjum aðstæðum. Kvíði veldur vanlíðan en getur líka verið gagnlegur til að verja börn hættum og gera þau varkár við ákveðnar aðstæður. Kvíði að ákveðnu marki er eðlilegur hluti þroskaferlisins.

Vandinn verði viðráðanlegur

Frá unga aldri mæta börn áskorunum með flótta, þörf fyrir hughreystingu, tregðu við að taka áhættu eða hjálparleysi. Yfirleitt leysist vandinn þegar barnið lærir að takast á við aðstæðurnar eða þær breytast. Ef barn lærir færni til að komast yfir hræðsluna verða engin varanleg slæm áhrif. Til að auðvelda börnum að aðlagast kvíðavekjandi aðstæðum geta foreldrar:

 • Viðurkennt áhyggjur barnsins og tekið mark á þeim.
 • Hlustað á og reynt að skilja hvernig barnið upplifir og túlkar aðstæðurnar, leiðrétt svo misskilning eða rangtúlkanir mildilega.
 • Sýnt þolinmæði og hvatt barnið til að nálgast hræðsluvaldinn skref fyrir skref uns hann venst og verður viðráðanlegur.

Óttast framandi aðstæður

Mörg ung börn sýna merki um hræðslu við ókunnuga og aðskilnað frá foreldrum en flest eru laus við aðskilnaðarkvíða við upphaf grunnskóla. Börn geta þó áfram óttast nýjar, framandi aðstæður og upplifað raunverulega eða ímyndaða ógn til dæmis af hundum, myrkri, trúðum, skrímslum eða geimverum. Þegar börn eldast, þroskast, læra nýja hluti og öðlast aukinn skilning beinist óttinn að raunverulegri hættum, innbrotsþjófum, sírenuhljóði, óveðri, veikindum eða ógnandi fólki. Með reynslunni læra þau að áhættan er ekki endilega yfirvofandi en er til og er misnálæg.

Á unglingsárunum verður félagsleg staða og samanburður við aðra æ mikilvægari og getur valdið kvíða um frammistöðu eða viðurkenningu í félagahópnum. Upplýsingar um  sjúkdóma eða samfélagshættur geta leitt til kvíða um eigið öryggi og áhyggjur af stríði og loftslagsbreytingum verða algengari með aldrinum.

Stöðugt á nálum

Hvort kvíði verður vandamál er ekki háð því hverju áhyggjurnar beinast að, heldur því hver áhrifin á barnið eru. Þörf er á aðstoð ef: 

 • Barnið upplifir óhóflegar áhyggjur eða vanlíðan umfram tilefni
 • Áhyggjur og flótti eru sjálfvirk viðbrögð barns við margar aðstæður
 • Barnið er stöðugt á nálum
 • Hvatning og stuðningur hjálpa barninu ekki að komast gegnum aðstæðurnar
 • Barnið fer auðveldlega í uppnám þegar aðstæður gera kröfur
 • Barnið síendurtekur spurningar til hughreystingar, er óhuggandi eða tekur ekki skynsamlegum rökum
 • Minnkuð þátttaka barnsins eða fjölskyldunnar út á við, í skóla, með vinum, í fjölskylduboðum eða afþreyingu
 • Líkamlegar umkvartanir til að sleppa undan kröfum
 • Miklar fyrir fram áhyggjur, klukkutímum, dögum, vikum áður en eitthvað stendur til
 • Svefntruflanir, erfitt að sofna eða martraðir
 • Fullkomnunarárátta og sjálfsgagnrýni
 • Ofurábyrgð, stöðugt reynt að geðjast öðrum
 • Endalausar dekstranir til að barnið sinni hversdagslegum viðfangsefnum og huggunarþörf vegna vanlíðunar í venjulegum aðstæðum

Hörmungarhyggja og svartsýni

Langvarandi kvíði er hamlandi, hindrar eðlilega þátttöku í daglegu lífi og getur valdið tregðu við að fara út af heimili, til dæmis í skóla. Kvíði truflar líka einbeitingu og getur leitt til óraunsæis, hörmungarhyggju, neikvæðni og svartsýni. Tilfinning fyrir að vera öðruvísi veldur kvíðnum börnum viðbótarálagi. Við þessar aðstæður er fagleg aðstoð mikilvæg.

Nánari upplýsingar og gagnleg ráð má til dæmis fá hjá heilsugæslunni og á heilsuvera.is.


Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur og forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu