Fleira bítur en lúsmý

Mynd af frétt Fleira bítur en lúsmý
18.07.2019

Nú um hásumar er margt sem hefur áhrif á það hvernig við njótum daganna. Bit hrjá marga og lúsmý hefur verið mikið í umræðunni. Það er þo margt annað en lúsmý sem bítur. Það er því ýmislegt sem gott er að hafa í huga þegar kláði, útbrot eða sár koma á húð. Hér eru nokkur dæmi:

Þörungar geta valdið veikindum

Í vatnsböðum geta verið þörungar á sveimi. Þessi eitrun er ekki algeng á Íslandi en þó nokkuð í löndunum í kringum okkur. Þetta er mest á þeim tíma sem við erum með blómgandi tímabil. Þörungar geta valdið kláða, höfuðverk, ógleði, uppköstum og niðurgangi. Einkenni vara oft í 1-2 daga en í mörgum tilvikum er rétt að leita aðstoðar á heilsugæslu eða bráðamóttöku, þar sem einkenni geta orðið alvarleg. Einkenni koma einhverjum klukkustundum eftir að setið er í vatninu. Þeir sem stunda böð þar sem þörungar eru skulu þvo sér vandlega eftir baðið og skola sápuna vel af. Er kláði kemur í augu ber að skola þau vandlega. Heilbrigðisstarfsfólk meðhöndlar síðan fólk mest eftir einkennum ef þau eru alvarleg.

Roði, bólga og verkur eftir geitungastungur

Geitungar stinga fólk oft eins og vel þekkist á Íslandi. Þessi bit eru sár og geta gefið verki í kringum bitið í einhvern tíma. Roði, bólga og verkur eru svo á svæðinu á eftir. Það fyrsta sem maður gerir er að tryggja að ekkert hafi orðið eftir í húðinni þegar geitungurinn losnar eða er sleginn af húðinni. Gott er að skrapa af húðinni og ná út þeim hluta sem eftir verður. Kæling er góð verkjastilling og það getur verið gagnlegt að kæla fyrst eftir að maður hefur verið bitinn. Stundum er notað deyfingarkrem á bitið eða bólgueyðandi steraáburður ef einkenni eru mikil. Þarf ég að leita aðstoðar?

  1. Ef stungan er í munninum er rétt að leita aðstoðar sem fyrst.
  2. Ef þú ert með ofnæmi fyrir geitungum er rétt að leita aðstoðar eða nota lyf sem þú hefur þegar fengið hjá lækni þínum.
  3. Ef einkenni eru vaxandi þegar frá liður og áfram vaxandi eftir nokkra daga frá biti. Þá ætti þetta almennt að vera gengið yfir.
  4. Fólk með undirliggjandi sjúkdóma getur þurft að leita aðstoðar.

Svo er til að skógarmítill berist til landsins eða að fólk hefur verið bitið af slíkum í útlöndum. Það er einkennandi að dýrið bítur sig fast í húðina og eftir slíkt bit er oft roði og bólga í nokkra daga. Gott er að fjarlægja dýrið sem fyrst, þar sem smit á vissum hættulegum sýklum getur borist með skógarmítli. Þá er spurning hvenær er rétt að leita aðstoðar. Langflestir þurfa þess ekki, enda eru bitin saklaus. Borelia er ein af þeim sýkingum sem geta fylgt biti skógarmítils. Þá koma útbrot á húðina nokkrum dögum eftir bitið og eru útbrotin nokkuð dæmigerð. Þá er mikilvægt að leita aðstoðar og meðhöndla með sýklalyfjum. Oftast er um að ræða útbrot sem eru stærri en fimm cm, líta út eins og skotmark með roða í miðjunni og yst en ljósara í milli og stækka smám saman.

Bitin eru oftast saklaus

Á undanförnum árum hefur tíðni TBE eða Tick-borne encephalitis (heilabólgu) aukist. Þá fær fólk heilabólgu eftir bit af skógarmítli og jafnvel varanleg einkenni. Farið er að bólusetja við þessum veirusjúkdómi, enda er hann mjög alvarlegur og engin meðferð til. Getur því verið skynsamlegt að láta bólusetja sig ef maður er á svæðum þar sem slíkt kemur fyrir. Munum að fara varlega og ef einkenni vara lengi er alltaf rétt að leita aðstoðar. 

Óskar Reykdalsson heimilislæknir og forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu