Heilsugæslan - Hér fyrir þig

Mynd af frétt Heilsugæslan - Hér fyrir þig
29.05.2019

Framtíðarsýn og stefnumótun kynnt á ársfundi heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Ný stefnumótun og framtíðarsýn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) var kynnt á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn var á Hótel Natura Reykjavík í gær, þriðjudaginn 28.maí. Einnig voru ný einkennisorð kynnt til sögunnar en þau eru: Heilsugæslan - Hér fyrir þig.  
Unnið hefur verið að stefnumótuninni frá því í byrjun árs og var meðal annars fundað með starfsmönnum á öllum 15 heilsugæslustöðvum HH og fleiri starfseiningum stofnunarinnar auk þess sem haldinn var sérstakur starfsdagur með stjórnendum. 

Sameiginleg sýn á framtíðina

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga gerðu á fundinum grein stefnumótunarferlinu en síðast var ráðist í slíka vinnu árið 2002 og því var kominn tími til að fara að nýju yfir áherslurnar í starfinu. Þær sögðu að vilji hafi verið til þess að ná fram sameiginlegri sýn starfsmanna á framtíðina en heilsugæslunni væri ætlað enn stærra  hlutverk í heilbrigðisþjónustu landsmanna meðal annars í Heilbrigðisáætlun stjórnvalda til ársins 2030. Þær sögðu samtöl við starfsmenn hafa verið uppsprettu margra góðra hugmynda og að í þeim hafi birst ótrúlega mikill samhljómur um hvað geri HH að eftirsóknarverðum vinnustað og hvað beri að leggja áherslu á og standa vörð um í þjónustu stofnunarinnar.  Niðurstaðan þessa starfs er sú að heilsugæslan hafi á að skipa þeim mannauði, starfsumhverfi og skipulagi til að geta verið sú grunnstöð heilbrigðisþjónustunnar sem mætir þörfum samfélagsins. Hlutverk hennar sé að vera fyrsti viðkomustaður fólks sem þarf á heilbrigðisþjónustu, heilsuvernd og heilsueflingu að halda og hlutverk hennar sé einnig að vera vettvangur kennslu, vísinda og þróunar í heilsugæslu. Þá kynntu þær endurskoðuð gildi HH sem starfsmenn vilja standa fyrir en þau eru: Virðing - samvinna - fagmennska. 
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ávarpaði fundinn og sagðist vænta góðs af áframhaldandi samstarfi við stjórnendur og starfsfólk heilsugæslunnar til að bæta heilbrigði allra og heilbrigðisþjónustuna almennt. Hún lýsti ánægju með nýtt slagorð heilsugæslunnar - Hér fyrir þig - og sagði það hófstillt og bera með sér að það sé gott að leita til  stofnunarinnar.

Bætt aðgengi

Í skýrslu Óskars S. Reykdalssonar nýs forstjóra HH um starfið 2018 kom fram að markvisst hafi verið unnið að því að bæta aðgengi íbúa að þjónustu HH meðal annars með opnum móttökum og hjúkrunarvakt allan daginn. Þetta hefur dregið úr álagi á Bráðamóttöku Landsspítala en heimsóknum á heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði úr liðlega 342 þúsundum árið 2015 í tæplega 467 þúsund árið 2018. Hann greindi frá aukinni þjónustu stöðvanna á árinu. Geðheilsuteymi vestur tók til starfa, sálfræðiþjónusta var aukin á öllum stöðvum og aukin áhersla var á geðheilsu í mæðravernd, ung-og smábarnavernd og heilsuvernd skólabarna. Óskar sagði mannauð heilsugæslunnar grunnforsendu starfseminnar.  „Við treystum á mannauðinn og höfum lagt áherslu á að hugsa vel um vinnustaðinn og það er lykilatriði að fólkið okkar sé ánægt í vinnunni,” sagði Óskar S. Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hér er hægt er að horfa upptöku frá fundinum