Hvað er til ráða við vorkvefinu ?

Mynd af frétt Hvað er til ráða við vorkvefinu ?
16.05.2019

Tíðni sýkinga er árstíðabundin. Núna er tíðni inflúensu að lækka eins og alltaf á þessum tíma árs. Þegar komið er fram á vorið er tíðni langvinnra öndunarfærasýkinga hærri en tíðni venjubundinnar inflúensu.

Stundum getur verið erfitt að greina hvort um sé að ræða ofnæmi eða sýkingar. Fjölmargir sem leita á vaktir á heilsugæslunni um þessar mundir koma vegna kvefs sem ekki batnar og því getur verið gagn að komast nær orsökum einkenna. Sjaldnast er gagn sýklalyfjameðferð en stuðningsmeðferð getur verið góð.

Er veirusýking orsökin?

Einkenni hefðbundinna kvefpesta eru margvísleg en hiti, nefkvef og hósti eru einkennandi og oft töluverð almenn óþægindi. Beinverkir og höfuðverkir geta fylgt en sjaldan nema 1-3 daga. Þessi einkenni ganga oftast yfir á viku eða svo og valda sjaldnast miklum vandamálum. Á þessum tíma er ónæmiskerfið að vinna á sýkingunni. Ónæmiskerfið þjálfast upp við þessa vinnu og verður sterkara á eftir. Ef einkenni dragast á langinn getur þurft að leita læknis. Til dæmis ef mikil einkenni kinnholubólgu koma með verk í kinnum og tönnum og almennt versnandi einkennum. Í þeim tilvikum getur verið gagn í sýklalyfjum og þá er gott að leita á sína heilsugæslustöð. Þar er opið á tímabilinu 08-18 en eftir það er opið á Læknavaktinni fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þar er opið til 23:30.

Stuðningsmeðferð getur verið margskonar og flýtt fyrir bata. Þegar berkjurnar í lungunum eru mjög bólgnar og spenna í vöðvunum í berkjunum er mikil er gagn í pústmeðferð með berkjuvíkkandi lyfjum. Ef nefkvefið er langvinnt eru nefsprey gagnleg. Mikilvægast er þó af öllu að fara vel með sig. Lungna- eða hjartasjúklingar sem og aðrir með undirliggjandi ónæmisbælandi vanda geta þurft að leita aðstoðar fyrr en aðrir. Stundum er vorkvefið ofnæmi. Ofnæmi fyrir loftbornum ertandi efnum eins og frjókornum kemur stundum fram með mjög svipuðum einkennum en þó er sjaldnast hiti. Meira áberandi er hnerri og kláði í nefi, hálsi og augum.

Ofnæmi eða sýking?

Læknir sem skoðar sér meiri bjúg í augnbólgum en ef um er að ræða sýkingu. Það er einnig sérstakt við ofnæmi að koma þegar maður er útsettur fyrir ofnæmisvaldi. Ef um er að ræða ofnæmi fyrir hundahárum er líklegt að maður átti sig á tengingun við umgengni við hunda.

Frjókornaofnæmi kemur á ákveðnum tímum árs og það er einkennandi. Ofnæmi fyrir ákveðnum sveppategundum t.d. í rakaskemmdum húsum tengist oftast veru í þeim húsum. Þannig mætti lengi telja. Ofnæmiskvef kemur oftast fyrir 10 ára aldur og hættir oft fyrir 50 ára aldur.

Algengt er ofnæmi fyrir mörgum loftbornum þáttum eins og rykmaurum, sveppum (sem eru í röku húsnæði), frjókorn, mygla og hár dýra eins og hunda og katta. Það er áhugavert að segja frá því að ofnæmi er sjaldgæfara hjá börnum sem alast upp í ákveðnum óhreinindum, t.d. umgangast dýr í sveitum, en hjá þeim sem alast upp við sótthreinsað umhverfi. Ástæðan er talin vera sú þjálfun sem ónæmiskerfið verður fyrir við slíkar aðstæður.

Greint á milli?

Ef það er mikilvægt að greina ofnæmi er oft gagn í að gera blóðrannsókn eða ofnæmispróf. Blóðrannsóknin byggist oft á að meta fjölda svokallaðra eosinophila í blóði og magn IgE. Fólk veit þó oft hvort það er með ofnæmi eða ekki. Sá sem er með birkiofnæmi veit af reynslu áranna að hann kvefast alltaf og fær hnerra og kláða í augu og nef á sama tíma og frjókornin eru í hæsta styrkleika. Oftast er því ekki mjög erfitt að greina þarna á milli en meðferðin er misjöfn. Í þeim tilvikum sem einkenni eru ekki alveg augljós er hægt að nota sérstök próf til að staðfesta grun sinn. Þessi próf gera ofnæmislæknar og deildir spítala.

Hvaða meðferð er í boði?

Í ofnæmi er rétt að nota sérhæfða ofnæmismeðferð. Aðalatriðið er þó alltaf að forðast það sem maður hefur ofnæmi fyrir. Til eru töflur, nefsprey og augndropar með svokölluðum antihistamínum en þau lyf draga úr einkennum ofnæmis.

Í sumum tilvikum er rétt að leita læknis sem getur skoðað og metið ástandið og þannig hjálpað þér að velja rétta aðferð til að losna við einkennin. Munum að hollar lífsvenjur og regluleg hreyfing hefur jákvæð áhrif á heilsu hvort sem um er að ræða sýkingar eða ofnæmi. Þá er Dvítamín mikilvæg fæðubót á stöðum eins og Íslandi.

Óskar Reykdalsson heimilislæknir og forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu