Heilsugæsla og þjónusta við aldraða

Mynd af frétt Heilsugæsla og þjónusta við aldraða
04.04.2019

Góð heilsa á efri árum er eftirsóknarverð og lífsgæði eru fólgin í því að viðhalda eigin getu til athafna daglegs lífs sem lengst. Öldruðum Íslendingum fjölgar og fleiri ná háum aldri, þannig fjölgar þeim sem þurfa að stuðningi að halda. Við í heilsugæslunni viljum styðja við okkar skjólstæðinga og stuðla að sem bestri heilsu með hækkandi aldri og höfum margvísleg úrræði.

Mikilvægt er að sinna og meðhöndla vel ýmsa algenga sjúkdóma til að fyrirbyggja fylgikvilla og lasleika. Nefna má háþrýsting, sykursýki, slitgigt og þunglyndi. Allt algengir sjúkdómar með hækkandi aldri, við í heilsugæslunni þekkjum vel þessa sjúkdóma og mikilvægi þess að sinna þeim.

Styrkja fólk til sjálfshjálpar

Í þeirri viðleitni að sinna öldruðum enn betur eru nú þegar eða verða fljótlega hjúkrunarfræðingar á öllum heilsugæslustöðvum sem auðvelda eldra fólki aðgengi að heilbrigðisþjónustu, styrkja fólk til sjálfshjálpar og samhæfa þjónustu milli þeirra sem hana veita. Hægt er að panta tíma hjá þessum hjúkrunarfræðingum sem vinna náið með læknum og öðru starfsfólki heilsugæslunnar. Heimahjúkrun er innan heilsugæslunnar nema í Reykjavík og vilji er til að auka enn frekar þá samvinnu, þar er öldrunarhjúkrunarfræðingur í lykilhlutverki.

Byltur eru vandamál hjá öldruðum, margt er hægt að gera til að koma í veg fyrir byltur og við ætlum að styrkja byltumóttökur á heilsugæslustöðvum í samvinnu við öldrunarlækna.

Elliglöp og gleymska geta átt sér margvíslegar orsakir og margt hægt að meðhöndla. Hægt er að greina og jafnvel meðhöndla þessa sjúkdóma í heilsugæslunni eða í samvinnu við öldrunarlækna. Ekki má gleyma aðstandendum, þessir sjúkdómar eru erfiðir öllum og sjálfsagt að fá stuðning í viðtali.

Við erum með hreyfistjóra sem heldur utan um virkni og hreyfingu sem er mikilvæg jafnt fyrir unga sem aldraða.

Góð samvinna er milli heilsugæslunnar og öldrunardeildar LSH. Öldrunarlæknar sinna margvíslegri endurhæfingu og greiningu, m.a. á Landakoti og öldrunardeildum LSH. Ef þörf er á sérhæfðu mati, greining er erfið eða óljós, lyfjagjöf flókin eða vandamál margþætt getur heimilislæknir skrifað tilvísun til öldrunarlækna. Nýlega voru haldnir samráðsfundir öldrunarlækna og heilsugæslulækna með öldrunarhjúkrunarfræðingum og rætt um algenga sjúkdóma.

Andleg vanlíðan oft vanmetin

Einmanaleiki og andleg vanlíðan er vaxandi vandamál hjá öldruðum og oft vanmetið. Dagvistun er gott úrræði og oft vanmetið. Í boði er margvísleg dægradvöl, oft þjálfun, auk samveru, sem er mjög mikilvæg.
Ég starfa í sama húsi og Þorrasel, dagvist aldraðra, sem er í vesturbæ Reykjavíkur. Það lífgar upp á daginn að fylgjast með ánægðum skjólstæðingum Þorrasels, jafnvel úti í garði að labba eða ræða málin.

Við í heilsugæslunni viljum sinna öldruðum þegar heilsan gefur sig, greina og meðhöndla sjúkdóma sem gera vart við sig með hækkandi aldri. Það getur verið erfitt og flókið fyrir aldraða og aðstandendur að átta sig á hinum ýmsu úrræðum sem í boði eru, þá er gott að leita til þeirra sem betur þekkja til. Starfsfólk heilsugæslunnar er reiðubúið að aðstoða aldraða og aðstandendur þeirra. 

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, settur framkvæmdastjóri lækninga, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu