Er ég með mislingabólusetningu?

Mynd af frétt Er ég með mislingabólusetningu?
12.03.2019

Getið þið athugað hvort ég sé bólusett/ur við mislingum? Og hvort ég sé með eina eða tvær bólusetningar?

Þetta eru algengustu spurningarnar sem við fáum þessa dagana og stutta svarið er NEI. 

Hægt er að sjá bólusetningar sem gefnar voru eftir að farið var að skrá bólusetningar í rafrænan bólusetningagrunn, inn á mínum síðum á heilsuvera.is eða á island.is

Ef bólusetningin þín er ekki skráð rafrænt, höfum við ekki tækifæri til þess að fletta þér upp eins og staðan er dag. 

Eldri bólusetningaskrár eru ekki aðgengilegar á heilsugæslustöðvum. Það er mjög tímafrekt að leita í þeim þar sem þær eru í geymslum og skjalasöfnum. Það er líka dýrt og seinlegt að mæla mótefni.

Þeir sem eru fæddir eftir 1975 eru líklegast bólusettir nema foreldrar þeirra hafi hafnað bólusetningu. Allir fengu bólusetningarskírteini sem oft eru til í fórum foreldra þeirra. Ef bólusetning er skráð í kringum 12 ára aldur er það líklegast mislingabólusetning.

Ef þú átt ekki bólusetningakort og hvorki þú, né foreldrar þínir, muna eftir að þú hafir fengið mislinga mælum við með því að þú mætir í bólusetningu ef þú ert fæddur 1970 eða síðar.

Það er skaðlaust að fá bólusetningu aftur og það er einfaldasta, ódýrasta og öruggasta leiðin.

Þess skal einnig getið að fólk með eina bólusetningu er varið í 93% tilfella en fólk með tvær bólusetningar er varið í 97% tilfella.