Hreyfing, næring og næg hvíld

Mynd af frétt Hreyfing, næring og næg hvíld
11.01.2019

Nú hefur landinn tekið við sér eftir konfekt, kúr og kósý jól og liggur straumurinn í hverskyns hreyfingu og íþróttaiðkun. Það er reyndar okkar tilfinning að fólk sé í meira mæli farið að setja heilsu sína í forgang. Það sjáum við meðal annars á gífurlegri fjölgun heimsókna inn á heilsuvefinn, www.heilsuvera.is sem er samstarfsverkefni heilsugæslunnar og Embætti landlæknis, og hefur það markmið að bjóða uppá áreiðanlegan fróðleik um heilsu.

Regluleg hreyfing getur skipt sköpum fyrir góða heilsu og vellíðan en það er einnig mikilvægt að huga að öðrum þáttum eins og nægilegri hvíld, svefni og góðri næringu. Ef hugað er vel að þessum þáttum geta þeir dregið úr líkum á langvinnum sjúkdómum. 

Hugað að mataræði við þjálfun

Ráðlögð hreyfing fyrir fullorðna er 30 mínútur á dag og 60 mínútur á dag fyrir börn. Þeir sem stunda þjálfun í meira mæli t.d. erfiða líkamsrækt eða keppnisíþrótt þurfa að huga vel að mataræðinu og tryggja að það styðji við næringarþörf líkamans. Ef orku- eða næringarefnaþörf er ekki mætt er hætta á að það komi niður á mikilvægri líkamsstarfsemi s.s. hormóna- og ónæmiskerfis, efnaskiptum, einbeitingu og fleiru.

Ofþjálfunareinkenni geta komið fram ef íþróttafólk fær ekki næga orku fyrir bæði miklar æfingar og til að viðhalda grunnlíkamsstarfsemi, viðgerð og endurheimt. Inn á  www.heilsuvera.is er að finna mikið efni um samspil næringar og hreyfingar. Þar er t.d. að finna efni um íþróttakonur og mikilvæg næringarefni. En íþróttakonur þurfa sérstaklega að huga að næringarþörfum sínum.

Vítamín og steinefni

Tryggja þarf að inntaka orkugefandi næringarefna sé í samræmi við þarfir og að þarfir fyrir vítamín og steinefni séu uppfylltar. Einnig má finna efni á www.heilsuvera.is  um íþróttir og jurtafæði þar sem fjallað er sérstaklega um ákveðin atriði sem íþróttafólk sem aðhyllist jurtafæði ætti að hafa í huga. Eins má finna kafla um næringu og þolíþróttir en þolíþróttir eins og t.d. hlaup, hjólreiðar og þríþrautir njóta síaukinna vinsælda meðal almennings. Þarna er að finna ýmis hagnýt ráð um næringu við ákveðnar þolíþróttagreinar, svo sem hvað er gott nesti fyrir fjallgönguna eða hjólreiðatúrinn.

Vökvainntaka og íþróttir er annar áhugaverður kafli þar sem leiðbeiningar má finna um hvað er best að drekka og hvenær auk þess sem rýnt er í mikla flóru íþróttadrykkja og orkudrykkja.

Meltingaróþægindi við þjálfun eða keppni

Þegar fjallað er um samspil næringar og hreyfingar er vert að minnast á meltingaróþægindi og hreyfingu. Flestir sem stunda íþróttir kannast eflaust við það að hafa einu sinni eða oftar fundið fyrir meltingaróþægindum í tengslum við þjálfun eða keppni. Í raun er um nokkuð algengt og hvimleitt vandamál að ræða sem, auk þess að valda viðkomandi ónotum, getur bitnað á árangri og jafnvel orðið til þess að hætta þarf keppni. Einkenni geta verið allt frá vægum kviðverkjum til mikilla verkja, ógleði, brjóstsviða, uppþembu, niðurgangs og uppkasta. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvort orsakir meltingaróþægindanna séu tengdar næringu eða lífeðlisfræðilegum þáttum. Heilsuvera hjálpar til við að greina þar á milli.

Að lokum viljum við benda á að inná www.heilsuvera.is er að finna netspjall þar sem hjúkrunarfræðingar veita ráðgjöf og vísa í viðeigandi úrræði í heilbrigðiskerfinu. Þar er einnig hægt að koma á framfæri athugasemdum og hugmyndum að efni til að gera vefinn enn betri.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Margrét Héðinsdóttir, verkefnastjóri heilsuveru, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins