Ábyrgð á heilsu með eigin atorku

Mynd af frétt Ábyrgð á heilsu með eigin atorku
07.01.2019

Á nýju ári er algengt að fólk setji sér markmið og oft tengjast þessi markmið heilsu og líðan – þ.e. áætlun um að bæta heilsu sína. Regluleg hreyfing er einn af mikilvægustu áhrifaþáttum heilbrigðis og með því að stunda hreyfingu sem hentar þá er bæði hægt að minnka áhættu á að fá ýmsa sjúkdóma en einnig er hægt að stemma stigu við áframhaldandi þróun sjúkdóma eða sjúkdómseinkenna.

Lífsstílssjúkdómar valda flestum dauðsföllum

Talað hefur verið um að faraldur lífsstílssjúkdóma á Vesturlöndum. Langvinnir lífsstílssjúkdómar valda nú þegar 86% af öllum dauðsföllum í Evrópu.

Hreyfingarleysi er einmitt einn af mikilvægum áhættuþáttum algengra sjúkdóma og því er hreyfingin nauðsynleg sem meðferð eða hluti meðferðar þessara sjúkdóma. Þróaðar hafa verið ýmsar aðferðir til beita hreyfingu sem meðferð hjá þeim á því þurfa að halda og er hreyfiseðillinn eitt af þeim meðferðarúrræðum sem heilbrigðisstarfsmenn nota til að meðhöndla hina ýmsu sjúkdóma. 

Bætt heilbrigði og líðan

Frá því um áramótin 2016 – 2017 hefur hreyfiseðill verið í boði á öllum heilbrigðisstofnunum landsins og á nánast öllum heilsugæslum á höfuðborgarsvæðisins.

Ef heilbrigðisstarfsmaður telur að hreyfing ætti að vera hluti af meðferð við sjúkdómsástandi þá er hreyfiseðill eitt af þeim úrræðum sem einstaklingurinn ætti að nýta til að takast á við ástandið. Heilbrigðisstarfsmaðurinn skrifar út hreyfiseðil og bókar viðtalstíma hjá hreyfistjóra sem er sjúkraþjálfari og starfar á heilsugæslunni.

Í þessu viðtali er farið yfir ástand einstaklingsins og bæði möguleikar og geta til hreyfingar metnir og ræddir í sameiningu og í flestum tilfellum er framkvæmt 6 mínútna göngupróf. Einnig setur einstaklingurinn sér markmið og hreyfiáætlun er útbúin, yfirleitt til þriggja eða sex mánaða.

Hreyfiáætlunin byggir á áhuga, getu og bestu þekkingu um magn, ákefð og tímalengd þeirrar hreyfingar sem mælt er með sem meðferð við einkennum og/eða sjúkdómi viðkomandi. Sem dæmi má nefna þá er ráðlögð hreyfing við t.d. þunglyndi alls ekki sú sama og fyrir einstaklinga með hækkaðan blóðþrýsting.

Einstaklingurinn skráir síðan samviskusamlega hreyfingu sína rafrænt, en einnig er hægt að hringja í ákveðið símanúmer og þá skráist hreyfingin inn á hreyfiáætlun einstaklingsins. Með þessu fyrirkomulagi á skráningu hreyfingarinnar gefst tækifæri til að fylgjast með hvernig gengur miðað við markmiðin sem sett voru. Hreyfistjórinn fylgist þannig með framvindu og gangi mála, veitir aðhald, hrós og hvatningu með símtölum og tölvupóstum.

Við lok meðferðar tekur hreyfistjóri saman greinargerð þar sem lagt er mat á árangur meðferðarinnar og greinargerðinni er komið til annarra meðferðaraðila. Hver ávísun hreyfiseðils getur varað í allt að eitt ár en auðvitað er hægt að fá hreyfiseðli úthlutað oftar en einu sinni.

Er hreyfiseðill fyrir þig?

Við hvetjum þig sem ert að glíma við sjúkdómsástand þar sem regluleg hreyfing getur haft umtalsverð áhrif að ræða við þinn lækni, hjúkrunarfræðing, sálfræðing eða sjúkraþjálfara um möguleika hreyfiseðils fyrir þig. Dæmi um slíkt sjúkdómsástand er hár blóðþrýstingur, fullorðinssykursýki, ofþyngd, langvinnir verkir, depurð, kvíði og streita.

Greinin sem birtist fyrst í Morgunblaðinu er skrifuð af Auði Ólafsdóttur verkefnastjóra hreyfiseðla hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.